föstudagur, 5. apríl 2013

Hornvík brosir við vetrargestum




Myndin er tekin skammt vestan við Stígshús á Horni og horft er yfir víkina til Rekavíkur bak Höfn, 
Hvannadals og hins tilkomumikla Hælavíkurbjargs.
Hornvík er fögur að vetrarlagi. Þar hef ég verið undanfarna daga ásamt góðu fólki og notið vetrarríkisins. Líklega er þetta dálítið orðum aukið hjá mér því þarna var frekar hlýtt, aðeins um tveggja til sjö gráðu hiti.

Snjór var ekki mikill í Hornvík og varla skíðafært. Hins vegar snjóaði nokkuð síðasta miðvikudag og þá breyttist ásýndin.

Næsta mynd er tekin frá Höfn og sér yfir víkina til Núpsins, fremst á Hornbjargi, Miðfells, drangsins Jörundar og Kálfatinds. Ekki vita allir að handan við þessi fjöll er sjálft Hornbjarg, þar er þverhnípt í sjó fram,
rétt eins og fjöllin hafi verið skorin og eystri hlutinn fjarlægður. 
Annars er engin ástæða til að mikla fyrir sér veðurlag á Hornströndum. Í sannleika sagt er bara hægt að líta á landakortið og sjá hversu litlu munar á til dæmis Hornvík og öðrum stöðum þar sem fólk býr og lifir hamingjusamlega. Um 47 km eru í loftlínu frá Bolungarvík í Hornvík og svipað munar á fjarlægðinni frá Skaga og á þá breiddargráðu og Hornvík stendur á.
Horft er hér inn í Hornvík. Rekavík bak Höfn er lengst til hægri og fyrir botni víkurinnar, á miðju myndarinnar er Hafnarsandur. Hér kannast þúsundi Íslendinga við sig, hafa gengið þessar fjörur 
og upp í Atlaskarð sem er ofan Rekavíkur.

Forðum var hörð lífsbaráttan á Hornströndum rétt eins og annars staðar á landinu.

Á næstunni ætla ég að birta hérna nokkrar myndir af Hornströndum og hafa til samanburðar myndir sem ég hef tekið að sumarlagi. Það getur verið ansi fróðlegt, held ég.