sunnudagur, 28. júlí 2013

Gönguleiðin á Kistufell í Esju




Gönguleiðin upp á Kistufell er merkt með punktalínu og akleiðin að uppgöngustað er merkt með rauðri línu. Kortið er fengið að láni af vef Landmælinga Íslands.

Laugardaginn 26. júlí 2013 brá ég undir mig betri fætinum og skokkaði upp á austurhorn Kistufells í Esju. Þetta er ein af skemmtilegustu gönguleiðunum.

Ég fer eiginlega ekki núorðið á Þverfellshorn vegna þess að þar er alltof mikill ágangur fólks og að auki lítur leiðin skelfilega út. Ég ók á Toyota Yaris upp á Esjumela og þaðan austur eftir malarvegi milli Esju og Mosfells. Enginn vandi að aka þarna, fór bara varlega.

Ökuleiðin sést á meðfylgjandi korti og punktaleiðin sýnir gönguleiðina upp. Veðrið í gær var það besta sem komið hefur á höfuðborgarsvæðinu og ég hafði eiginlega mestar áhyggjur af því að hitinn væri of mikill. Sem betur fer var golan vestanstæð og kom í bakið á mér á leiðinni upp, magnaðist aðeins á uppleiðinni og kældi mann passlega.

Göngleiðin
Ég mæli með því að gengið sé upp með gilinu sem sést vinstra megin á myndinni. Þar er leiðin eins auðveld og hún getur orðið. Gilið er lítið og snoturt. Í því eru um sjö litlir fossar og gaman að skoða umhverfi þeirra.

Upp á Kistufell má ætla fjóra áfanga eða fleiri ef vill. Stallar eru í hlíðinni sem ágætt er að miða við. Og ekki má gleyma að snúa sér við og skoða útsýnið eftir því sem hærra er komið. Sérstaklega er fallegt að fylgjast með breytingum til austurs. Þar er Grafardalurinn, djúpur og fallegur, Hátindafjallið og svo Móskarðshnúkar.

Móskarðshnúkar, myndin er tekin með miklum aðdrætti frá Kistufelli.
Þeir njóta sín engu að síður vel enda litirnir stórkostlegir.
Hérna er mynd af Móskarðshnúkum sem ég tók með talsverðum aðdrætti. Tindarnir njóta sín vel, stórkostlegir í litadýrð sinni. Ef vel er að gáð má greina gönguleið sunnan í hlíð Móskarðshnúks, en svo held ég að austasti hnúkurinn sé kallaður.

Mér finnst nokkuð miður að þarna skuli vera komin stígur. Aðal uppgönguleiðin er upp eftir hryggnum en fólk gengur yfirleitt niður hlíðarstíginn. Hryggurinn ætti að duga fyrir upp- og niðurleið.

Hnúkarnir eru fjórir og sá austasti er hæstur, 807 m hár. Fjórði hnúkurinn er eiginlega ekki neitt neitt en er þó nægilega greinilegur til að vera talinn með.

Kistufell er í rúmlega 800 m hæð og er nokkuð slétt að ofan. Þar er mikill mosi. Í gær var ábyggilega yfir tuttugu gráðu hiti uppi og hlýr andvari af vestri.

Oft hef ég gengið mér til skemmtunar með suðurbrún Kistufells og allt að Gunnlaugsskarði og síðan til baka. Nokkrum sinnum hef ég gengið yfir á Hátind og þaðan niður. Þegar ég rifja göngur mína á Esju upp held ég að ég hafi gengið um hana mestalla. Í þetta sinn var ég latur, mátti það alveg. Lagðist bara í mjúkan mosann við vörðuna, drakk sódavatn og maulaði prins póló og horfði á veröldina. Þotur flugu hátt yfir, eins hreyfils rellur flugu langt fyrir neðan og þyrla heimsótti svæðið í útsýnisflugi með ferðamenn.

Þessi mynd er tekin við vörðuna á austurhorni Kistufells og er horft í austur. Strikin sem ég hef sett inn á myndina tákna gönguleiðir niður frá Hátindi og ofan í Grafardal. Ég þekki þær allar, þær eru mjög brattar og vissara að fara afar varlega á niðurleið. 
Ég er nokkuð ánægður með þessar myndir. Best er að smella á þær og þá er hægt að stækka þær nokkrum sinnum. Umfram allt hvet ég lesendur til að hætta að troða á Þverfellshorni, ganga á Kistufell, Móskarðshnúka, Kerhólakamb, Lág-Esju eða jafnvel í Gunnlaugsskarð.