miðvikudagur, 18. desember 2013

Bókin Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls



Fimmvörðuháls er ein vinsælast gönguleið landsins og sú langvinsælasta af þeim sem teljast til dagleiðar, það er meira en þriggja til fimm tíma ganga.

Gera má ráð fyrir að á hverju ári gangi hátt í tuttugu þúsund manns á Fimmvörðuháls og fyrir þessum vinsældum eru gríðarlega margar ástæður.

Bókin um Fimmvörðuháls 

Fyrir tveimur árum skrifaði ég bók um Fimmvörðuháls. Hún er afar mikið breytt endurgerð bókar sem ég skrifað og kom út árið 2002. Síðan hafa auðvitað orðið gríðarlegar breytingar á Hálsinum. Ekki aðeins að þar hefur orðið eldgos og tvö eldfell myndasta í kringum gígana heldur hefur öskufall frá Eyjafjallajökli breytt ásýnd landslags á sunnanverðum Hálsinum talsvert. Hvoru tveggja eru gerð góð skil í bókinni.

Laus kort fylgja 

Góð kort bókinni. Kortin eru laus og því handhæg fyrir göngufólk. Inn á þau hafa gönguleiðirnar verið merktar sem og helstu örnefni. Þar með eru taldir fossarnir sem eru helsta prýði leiðarinnar á sunnanverðum Fimmvörðuhálsi, Skógaheiði. Myndir eru birtar af flestum þeirra sem finnast á fyrri hluta leiðarinnar og þeir bera margir nöfn. Þess má geta að lausu kortin eru einnig birt í bókinni sjálfri.

Nýja gönguleiðin 


Á nýju gönguleiðinni, frá svokölluðu Vaði (yfir Skógaá) og upp á Fimmvörðuhrygg, eru fjölmargir fossar og flúðir sem fæstir hafa augum litið. Allir eru þeir merktir inn á kortin og telst mér til um að þeir séu í allt þrjátíu og sjö. Áhöld geta þó verið um það hvað sé foss og hvað flúð. Engu að síður er Fossaleiðin, sem ég kýs að kalla hana, afar áhugaverð og óskaplega gaman að hafa gengið upp á Hálsinn og barið þá alla augum.

Norðan megin liggur hefðbundin gönguleið norður yfir Morinsheiði og um Kattahryggi og í Bása. Einnig er hægt að fara Hvannárgilið í Bása en það er fáfarin er heillandi gönguleið.

Svona má nú lengi masa um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls. Hún er frábær og viðlíka gönguleið er ekki að finna annars staðar á landinu. Eða hvar annars staðar getur göngumaðurinn t.d. grillað mat efst á eldfjalli með því að nýta þann gríðarlega hita sem látlaust streymir upp úr því?



Ódýr og fróðleg bók 

Bókina er hvergi hægt að fá lengur en hjá útgefanda og þar eru enn nokkur eintök óseld.

Þeir sem áhuga hafa geta pantað bókina á 5vh@simnet.is og hún verður send um hæl. Bókin kostar aðeins 1.990 krónur með vsk.



þriðjudagur, 17. desember 2013

En fjord skal ha et navn som ender på fjord ...



Esja séð frá Reykjavík.
Bláhnúkur við Landmannalaugar.
Þetta fjall þekkja allir enda höfum við Reykvíkingar það fyrir augunum nærri því á hverjum degi. Ekki er þó víst að allir þekki fjallið sem er á hinni myndinni.


Látum það vera enda er hér ekki um neina keppni að ræða. Munurinn á Esju og Bláhnúki við Landmannalaugar er talsverður en einna áhugaverðastur er munurinn á þessum tveimur örnefnum.

Ef ekki væri myndin segði nafnið Esja ekkert til um hvað um sé að ræða. Esja gæti þess vegna verið nafn konu, báts, bókar eða einhvers annars. Hins vegar fer enginn í grafgötur með að hnúkur er hluti fjalls og í þessu tilviki allt fjallið. Þetta beinir athyglinni að örnefnum.

Í bókinni Grímnir 1, riti Örnefnastofnunar um nafnfræði, segir Þórhallur Vilmundarson á bls. 125, en hann er að ræða um Surtshellir sem líkur benda til að hafi einfaldlega heitið Surtur (Surtr) fyrr á öldum:

Breytingin Surtr > Surtshellir er í samræmi við hina ríku tilhneigingu til að bæta stofnlið við einliðað örnefni sem M. Olsen kallar „en tendens som i den historiske tid har gjort sig gjeldende så å si overallt í norsk navneskikk: en fjord skal ha et navn som ender på „fjord“, en elv (en å) et nafn som ender på „elv“ („å“), o.s.v.
Det er trangen til å utheve skarpt den ankelte lokalitet som har fört til dette, og trangen måtte melde sig fordi visse mangler blev merkbare ved den eldre navngivning.
Hvínsfjorðr har avlöst en eldre, usammensatt fjordnavn Hvínir ... Mosse-elven har avlöst Moss (*Mors) ...“ (NK V, 32-33) Sbr hér á landi Reyðr > Reyðarfjall (-Reyðarfjörður), *Trékyllir > - Trékyllisvík (G1) o.s.frv.

Er þetta nú ekki alveg stórundarlegt. Eða hvað myndi lesendum finnast ef þróun örnefna hefði fylgt þessu út í ystu æsar og þá værum við með fyrir augunum Esjufjall, Hengilsfjall eða Henglafell, Keilisfjall, Strútsfjall, Krákufell, Grábrókarfell, Baulufjall og álíka.

Hefði hins vegar þróunin ekki orðið á þennan hátt værum við að ganga á Vífil, Kistu, Helga, Búr, Sel ...

Eða er þetta komið út í öfgar hjá mér. Ef til vill er hér ekki um örnefnaþróun heldur breytingu sem sum örnefni taka vegna einhverra ástæðna sem okkur er ekki kunnar en önnur halda sínu. Engu að síður er þetta áhugaverðar vangaveltur.

laugardagur, 14. desember 2013

Þórhallur Vilmundarson og náttúrunafnakenningin


 

Á árunum laust fyrir og um 1970 setti Þórhallur fram hina umtöluðu náttúrunafnakenningu sína og flutti um hana röð opinberra fyrirlestra í Reykjavík, við einstaklega góða aðsókn, enda fyllti hann þá Háskólabíó í nokkur skipti. Um þessi efni talaði hann einnig víðar um land, t.d. var hann í febrúar 1982 fenginn til að halda örnefnafyrirlestra í fæðingarbæ sínum Ísafirði. Við undirbúning fyrirlestranna hafði Þórhallur ferðast fram og aftur um allt land á jeppa sínum og tekið ógrynni af góðum ljósmyndum sem hann sýndi síðan máli sínu til stuðnings. Kenning hans var tvímælalaust sú djarflegasta og frumlegasta sem forystumaður í íslenskum fræðum kom fram með um langt árabil. Með tilkomu kenningarinnar vaknaði upp nýstárleg og gagnleg umræða um uppruna fjölda örnefna. Jafnvel var nú tekið að draga tilvist einstakra landnámsmanna í efa, og þótti sumum það reyndar mikil goðgá.
Þetta segir Björn Teitsson, fyrrum skólameistari á Ísafirði, í minningargrein í Morgunblaðinu í dag um Þórhall Vilmundarson, prófessor og fyrrum forstöðumann Örnefnastofnunar.

Grímnir 

Grímnir.
Svo vill til að í margar vikur hef ég verið að blaða í nokkrum bókum og þær hafa jafnan legið á borðinu hjá mér. Meðal þetta eru þrjá bækur sem bera nafnið „Grímnir, rit um nafnfræði“. Útgefandi var Örnefnastofnun Íslands og höfundur hins fjölbreytta efnis þeirra er áðurnefndur Þórhallur.  Fyrsta bókin kom út 1980, önnur bókin 1983 og sú síðasta 1996.

Þórhall þekkti ég ekkert. Hafði þó einu sinni eða tvisvar hitt hann að máli meðan ég gaf út tímaritið Áfangar. Ástæðan var einfaldlega sú að ég hafði keypt Grímni einhvern tímann 1982 og við það vaknaði áhugi minn á svokallaðri „náttúrunafnakenningu“ Þórhalls sem Björn Teitsson nefnir hér fyrir ofan.

Skortur á örnefnum 

Við lestur bókarinnar og raunar hinna tveggja sem á eftir komu vaknaði og treystist áhugi minn fyrir örnefnum. Snemma komst ég að þeirri staðreynd að örnefni á Íslandi eru fá og mörg hver eru hin sömu víða um landi. Þetta er einstaklega bagalegt fyrir ferðamenn enda ótækt að fjall beri einungis tölur sem er hæsti tindur þess. Þetta er engu að síður staðreynd. Niðurstaðan varð einfaldlega sú að örnefni eru ekki endanlegur sannleikur og ekki megi bæta við eins og svo margir halda.


Goðahraun á Fimmvörðuhálsi, eldfjallið Magni lengst til vinstri. Forn gígur hægra megin í forgrunni. Fyrir eldsumbrotin á Hálsinum 2010 lá gönguleiðin með honum, stundum var gengið á hann.
Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt,“ sagði Tómas skáld Guðmundsson í ljóði sínu Fjallgangan. Honum rataðist satt á munn. Þess vegna var ákveðið að gefa eldstöðvunum og hrauninu á Fimmvörðuhálsi nafn. Stóri gígurinn var nefndur Magni, sá minni Móði og hraunið Goðahraun enda heitir landið fyrir neðan Goðaland.

Skarpskyggni 

Í bókunum þremur fjallar Þórhallur Vilmundarson um fjölda örnefna. Rekur uppruna orða, ber þau saman við hliðstæð í öðrum tungumálum, skoðar staðhætti, ber þá saman við sambærilega staðhætti á Norðurlöndum og kemst svo að niðurstöðu. Þarna fór saman mikil menntun, þekking, skarpskyggni og fjölhæfni í einum og sama huga.

Góðaland 

Af því að ég nefndi Goðaland hér á undan er ekki úr vegi að greina frá því sem Þórhallur segir um örnefnið:

Frá Goðalandi. Myndin er tekin með miklum aðdrætti skammt frá Básum og horft til inn eftir dalnum, til austurs. .
Líklega hét G. upphaflega *Góðaland vegna góðra beitarskilyrða. Til samanburðar er Góðaland, suðurendi Vífilsstaðahlíðar, Gull., Godlendet í Stangehéraði á Heiðmörk (NGIII 167), Goathland (Godelandia um 1110) í Jórvíkurskíri (DEPN4, 199) o.s.frv. >Goðdalur, -ir. 

Emstrur 

Emstrur er skrýtið örnefni en það á í dag einkum við um landsvæði norðvestan við Mýrdalsjökul en gæti áður hafa náð talsvert sunnar, jafnvel allt að Ljósá sem telst nú til Almenninga. Þórhallur ræðir nokkuð ítarlega um örnefnið og þar er margur fróðleikurinn. Hér er hluti af umfjöllunin, lítilsháttar lagað til á mína ábyrgð (einnig vantar nokkur tákn sem finnast ekki á lyklaborðinu mínu):
Innri Emstruá, illfært skaðræðisfljót fór ekki mildilega með bílinn sem þarna sést. Brúin sést efst til hægri.
Nokkrar umræður hafa orðið um örnefnið Emstrur meðal fræðimanna. Á víkingaráðstefnu í Leirvík á Hjaltlandi 1950 fjallaði A.B. Taylor meðal annars um örnefnið Unst, sen svo heitir nú hin nyrsta Hjaltlandseyja, sem nefnd er Aumstr, Aurmtr, Qrmst í fornum heimildum.
Í umræðum á ráðstefnunni benti Jón Helgason á, að om- kynni að vera u- hljóðvarpsmynd rótarinnar am-, en hún kæmi fyrir í norrænum örnefnum og merkti 'erfiðleikar', t.d. Amager, Qmð í N-NOregi (nú Andöya). [...]
S. Bugge taldi eyjarheitið Qmð dregið af so. ama „gnide, skubbe“ og merkti þá 'eyja, sem núin er af hafi og vindum', en G. Knudsen hugði Amager hafa heitið í öndverðu *Amhakæ, þ.e. 'haki (oddi, sem veldur ama'.  
J. Kousgaard Sorensen telur, að fyrri liður Amager sé Ame, heiti sundsins milli Sjálands og Amakurs, af *am- nudda', nafnið þá leitt af því, að bátarhafi kennt gruns , er þeir sigldu um sundið, og kunni sama vatnsrásarnafn (vanddragsnavn) að vera í hinum þekktu örnefnum Amsterdam, Emden og Ems. [...]
Stórkonufell er sunnarlega á Emstrun, sunnan við Innri-Emstruá. Þarna liggur gönguleiðin milli
Landmannalauga og Þórsmerkur sem oftast er nefnd Laugavegurinn.
Í grein um viðskeytið -str- í germönskum örnefnum segir Th. Andersson hins vegarm að Emstrur á Íslandi sé eflaust ekki örnefni sem myndað sé sem slíkt með -str- viðskeyti, enda séu slík -str- örnefni ekki til á Íslandi.
Nafnið Emstrur mun dregið af so amstra 'þrælka; kveinka sér', no. amstur 'ómak; erfiði' sjá (Blöndal).
Sveinn Pálsson segir 1793, að Emstrur séu „formedelst Jökelelve nu om Stunder næsten ubefarlig ...“ 
Í sóknarlýsingu 1839 segir um Emstrur: „Verða þær lítt notaðar vegna ófærra vatna.“
Líklegt er því, að nafnið sé dregið af þessum erfiðleikum.
Fyrir leikmann er fengur að fá að lesa svona rökstuddan fróðleik. Það er nú alltaf einu sinni þannig að þegar maður hefur náð að kynna sér fræði sem falla vel að huga manns og ekki síður áhugamálum þykist maður hafa himinn höndum tekið, svo upplýsandi er þetta allt saman.

Ég trúi því að bæði leikmenn og fræðimenn framtíðarinnar eiga eftir að minnst Þórhalls Vilmundarsonar með virðingu og hlýju.

föstudagur, 13. desember 2013

Þegar við reyndum að gera íshelli í Skálafellsjökli



Fyrir um fimmtán árum reyndi ég að búa til íshelli í Skálafellsjökli en árangurinn var ekki mikill. Tilgangurinn var auðvitað sá að búa til ferðamannastað, viðkomu- og fróðleiksstað fyrir ferðamenn. Á þessum árum var ég framkvæmdastjóri Jöklaferða, fyrirtækis sem sá um vélsleða- og snjóbílaferðir um Vatnajökul og veitinga- og gistiaðstöðu auk ferðaskipulagninga í Austur-Skaftafellssýslu.

Komnir um fjóra til fimm metra inn í jökulinn.
Við völdum okkur stað ofarlega í Skálafellsjökli þar sem jökullinn var ekki á mikilli hreyfingu. Á þessum tíma var alltaf mikil ákoma á jökulinn um veturinn og hún entist fram á haust. Þess vegna þurftum við að moka djúpa gryfju til að komast að ísnum.

Þegar þangað var komið notuðum við loftpressu til að sprauta vatni á ísinn og brjóta hann þannig. Þetta tókst og ísinn brotnaði smám saman og við náðum að komast inn í ísinn. Mest held ég að við höfum farið um það bil þrjá til fjóra metra inn í jökulinn.
Tryggvi Agnarsson.

Þetta var svo gríðarleg mikil vinna. Ég hafði enga peninga í þetta og ákvað í upphafi að þetta yrði tilraunaverkefni og fékk vini og kunningja til að hjálpa til.

Þarna komu að málum Sigurður Árni Þórðarson, prestur, Tryggvi Agnarsson, lögmaður, Árni Jóhannsson, viðskiptafræðingur, Þorkell Þorkellsson, ljósmyndari, Sigurður Ólafsson, húsasmiður, Ögmundur Guðnason á Höfn og fleiri og fleiri. Allt hörkukallar og duglegir til vinnu. Margir þeirra áttu það sameiginlegt að trúa á verkefnið og höfðu oftast verið svo vitlausir að leyfa mér að teyma þá í alls kyns vitleysur

Við upphaf framkvæmda.
Ég hafði áður mikið rætt við Fjölni Torfason á Hala um svona helli en hann og Þorgerður Arnórsdóttir, kona hans voru og eru stórmerkir frumkvöðlar. Það voru þau sem byrjuðu með bátsferðir á Breiðamerkurlóni, hófu síðar silungseldi á Hala og stofnuðu loks Þorbergssetur.

Þér dugar ein eldspýta, sagði Fjölnir og glotti. Ég vissi auðvitað ekki hvort hann var að gera at í mér eða væri fúlasta alvara. En hann hafði fræðilega rétt fyrir sér. Hitinn af logandi eldspýtu dugar til að bræða ísinn, að minnsta kosti lítilsháttar. Og svo leiddi hvað að öðru og loks var hann búinn að sannfæra mig um að ísinn myndi láta undan, hvaða aðferð sem ég beitti. Andaðu bara á hann, sagði Fjölnir og hló.

Við upphaf framkvæmda.
Auðvitað reyndist þetta rangt hjá Fjölni. Ísinn er rosalega harður. Hann er mörg hundruð ára gamall og hefur myndast undir þrýstingi, mikið farg hvíldi á honum og þess vegna þarf meira en eldspýtu eða vatnsþrýstigræjur.

Já, hann var alveg déskoti harður og illur viðureignar. Það má því ljóst vera að í Langjökli verður gripið til betri verkfæra.

Eldur þyrfti að vera mjög mikill, líklega koma frá eldvörpu af einhverju tagi, og vatnsþrýstingurinn þyrfti að vera miklu meiri en ég hafði yfir að ráða.

Svo var vandinn sá að koma vatni að staðnum. Við brugðum á það ráð að fá lánaðar stórar bláar tunnur, fylltum þær af vatni og fórum daglega með uppeftir þessa fjóra daga sem við eyddum í verkefnið.

Ísinn var dásamlega fallegur og tær þarna uppi. Hann virtist algjörlega ómengaður af grjóti, sandi, leir eða ösku. Aðeins fallegur og tindrandi og ég sá framtíðina í honum en las því miður ekki smáa letri, þetta með kostnaðinn. Og því fór sem fór.

Árni Jóhannsson.
Þeir hlógu að mér margir Hornfirðingarnir og það var skiljanlegt. Hvernig átti fólk árið 1999 að átta sig á því að veðja ætti á ferðaþjónustu sem atvinnugrein.

Á þessum árum héldu margir að sjávarútvegur og landbúnaður væri framtíðin fyrir Ísland. Hins vegar voru þeir til sem gerðu sér far að kíkja á verkið og hvöttu mig til dáða.

Þeir sem skildu var ljóst að ef hægt væri að búa til íshelli væri kominn staður sem sjálfkrafa gæti dregið að þúsundir ferðamanna og þúsund möguleikar væru með hann. Þar væri hægt að segja frá jöklafræði, bjóða upp á veitingar og gistingu. Og hellirinn hefði engin takmörk.

Hægt væri að útbúa „herbergi“ eða „sali“ eftir þörfum. Rekstur jöklaferða þyrfti ekki að byggjast á stórhættulegum vélsleðaferðum enda vitað mál að það fer ekki öllum að stjórna ökutæki á jafn hættulegum stað og Skálafellsjökull er víða.


Fljótlega hurfu öll ummerki um hellisgerðina, jökullinn græðir sig sjálfur.

Þorkell Þorkelsson.
Ég hef alveg tröllatrú á því sem gera á Langjökli. Vandinn er hins vegar að finna stað sem er tiltölulega kyrr, jökullinn sé þar ekki á mikilli hreyfingu. Það getur valdið mikilli hættu en þó er hætt við að skelfing grípi um sig þegar jökullin hreyfist örlítið, þá heyrast undarleg hljóð.
Höfundur og Sigurður Árni Þórðarson.