miðvikudagur, 28. ágúst 2013

Er jökuláin kaldari en sú blátæra?




Vaðið yfir Reykjafjarðarós en fljótið kemur úr Drangajökli.
Loksins þig ég þekki, fljóð!
Vaðið yfir blátæra dragá.
þvílíkt hjarta ég aldrei sá:
það er heitt sem Heklu-glóð,
heljarkalt sem Jökulsá.

Svona orti Guðmundur Guðmundsson (187-1919) sem hafði viðurnefnið skólaskáld, en Halldór Blöndal nefnir hann í þeim skemmtilega dálki sem nefnist Vísnahorn og má finna daglega í Morgunblaðinu.

Ekki ætlaði ég að fjalla um ljóð að þessu sinni enda þótt þau séu mér ávalt hugstæð enda varla til sú listgrein sem er henni fegurri.

Margar árnar og fljótin hef ég vaðið á ferðalögum mínum um landið og yfirleitt alltaf formælt þeim farartálmum vegna þess hversu kulsækinn ég er á fótum. Það lagaðist um leið og ég komst yfir forláta „sokka“ eins og brimbrettafólk notar. Fyrir vikið get ég vaðið þvers og kruss án þess að finna fyrir kulda.

Vaðið yfir Rangala í Lónafirði en hann er einn af Jökulfjörðum
Hins vegar fannst mér yfirleitt blátæru árnar oftast miklu kaldari og verri viðureignar en jökulárnar. Og ég held að þetta sé óumdeilanlegt.

Jökuláin er gruggug og vitneskjan um að hún komi úr jökli er kuldaleg staðreynd en ekki endilega raunveruleg. Tær dragá eða lindá er yfirleitt skítköld nema þær séu þeim mun grynnri og rennslið hægt. Ef til vill er ástæðan sú að gruggið í jökulám dregur í sig sólarljósið og hitna þannig fyrr en tært vatnið.