fimmtudagur, 12. september 2013

Grjóthrúgur án tilgangs




Við Þingvallaveg
Vörðurnar hjá áningarstaðnum við Þingvallaveg eru bara dálítið flottar eins og sjá má (smellið nokkrum sinnum á myndina og stækkið). Held þó að þessi siður hafi orðið til þegar ferðamenn sáu Laufskálavörður og halda að það sé einhver siður að hlaða þær og helst setja einhver orð á blað og koma fyrir í þeim.


Beinakerlingin á Bláfellshálsi
Gamall og góður siður er að setja stein í vörðu og sagt var að það væri til fararheilla. Engum datt í hug að tugþúsundir ferðamanna, og í ofanálag útlendir rútuferðamenn, myndu rífa upp allt lauslegt grjót í kringum Beinakerlingu á Bláfellshálsi og henda í hrúgu. Grjóthrúga getur aldrei verið varða en varða getur orðið að grjóthrúgu. Raunar er umhverfi kerlingarinnar grátbroslegt

Öllu má nú ofgera og þegar ferðamenn eru komnir nærri einni milljón á ári og stór hluti þeirra druslast á einhvern hátt út um þjóðvegi getur verið að einhverjir þeirri haldi að grjót sé öllum frjálst til afnota og helst til mislukkaðrar mannvirkjagerðar sér til fararheilla. Þvílíkur misskilningur hjá þeim.

Varða við Hveravelli, vegprestur vístar til Þjófadala
Ég held að öllum sé hollt að minnast þess að vörður eru vegvísar, margar þeirra eru afar gamlar og í raun ekkert annað en fornminjar og margar skráðar sem slíkar. Höfuð þetta hugfast og hvetjum ekki til slíkrar steinaldar sem útlendir ferðamenn hafa gerst sekir um. Ekki búa til gangslausar hefðir.

Jú, litlu vörðurnar virðast flottar við fyrstu sýn, en eru algjörlega úr takti við íslenskar hefðir. Þar að auki er bölvað landrask af þeim. Er ekki betra að afhenda ferðamönnum poka með nokkrum lúpínufræjum og biðja þá um að koma fyrir á þar sem ekki finnst stingandi strá. Jæja ... eða að fá þeim í hendur tré og biðja þá um að gróðursetja t.d. við áningarstaði. Þar með væri eitthvað gagn gert.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli