Búrfell landsins merkt inn á kort frá Landmælinum Íslands. |
Áður en lengra er haldið er hér listinn yfir Búrfell landsins. Mér telst svo til að þrjátíu og níu fell, fjöll, hálsar eða álíka beri nafnið Búrfell:
- Búrfell við Hafravatn í Mosfellsbæ, 81 m
- Búrfell í Heiðmörk, Garðabæ, 179 m
- Búrfell, norðvestan Þingvalla, 782 m
- Búrfell í Reykholtsdal við Rauðsgil, 398 m
- Búrfell vestan við Síðufjall í Borgarfirði, 156 m
- Búrfell í Norðurárdal, sunnan Snjófjalla, ca. 260 m
- Búrfell, sunnan við Rif og Hellissand, 232 m
- Búrfell við Svínadal í Dölum, norðan í Miðfjalli, ca. 560 m
- Búrfell innst í Gilsfirði, 262 m
- Stóra-Búrfell, norðan Bjarkalundar, í Vaðalfjöllum, 448 m
- Litla-Búrfell, norðan Bjarkalundar, í Vaðalfjöllum, ca. 360 m
- Búrfell norðvestan við Brjánslæk í Vatnsfirði, 514 m
- Búrfell innst í Patreksfirði (Ósafirði), við Botnsheiði, 412 m
- Búrfell innst í Patreksfirði (Ósafirði), við Botnsheiði, ca. 320 m
- Búrfell við Selárdal í Arnarfirði, 455 m
- Búrfell innst í Dýrafirði sunnanverðum, 505 m
- Búrfell skammt frá Ísafirði, það er á milli Súgandafjarðar og Skutulsfjarðar, 741 m
- Búrfell, milli Hesteyrar og Miðvíkur í Aðalvík, 498 m
- Búrfell upp af Gervidal við Ísafjörð, 601 m
- Búrfell ofan Reykjafjarðar á Ströndum, 697 m
- Búrfell á austanverðum Hrútafjarðarhálsi, 204 m
- Búrfell á Sólheimahálsi við Langadal, skammt frá Blönduósi, 282 m
- Búrfell á Skaga, norðan Sauðárkróks, 158 m
- Búrfell syðst í Svartárdal í Skagafirði, ca. 620 m
- Búrfell í Fjörðum, vestan megin í Hólsdal innan við Þorgeirsfjörð ca. 120 m
- Búrfell austan við Húsavík, 761 m
- Búrfell suðaustan við Öxarfjörð og suðvestan við Þistilfjörð, 605 m
- Búrfell austan við Mývatn, við Mývatnsöræfi, 953 m
- Búrfell á Hauksstaðaheiði, sunnan Jökulsárhlíðar, 369 m
- Búrfell milli Borgarfjarðar eystri og Brúnavíkur, 451 m
- Búrfell austan við Þríhyrningsfjallgarð, norðvestan Jökuldals, 631 m
- Búrfell, austan við Kárahnjúka, 840 m
- Búrfell við norðanverðan Reyðarfjörð, við veginn yfir í Vaðlavík, 393 m
- Búrfell í Skaftártungu, vestan Eldvatns, ca. 220 m
- Búrfell í Mýrdal, 393 m
- Búrfell við Þjórsárdal, 655 m
- Búrfell austan við Hvítá, suðaustan Bláfells, 499 m
- Búrfell í Grímsnesi, suðaustan við Úlfljótsvatn og Þingvallavatn, 536 m
- Búrfell norðvestan við Þorlákshöfn, 200 m
Verkefnið
Búrfell austan Mývatns, sjá nr. 28. |
Mér finnst frekar óljóst er af hverju nafn fjallanna er dregið og þess vegna fór ég í dálitla heimildavinnu. Hún dróst dálítið á langinn, endaði í vikuvinnu.
Leiddi nú hvað af öðru. Ég glataði tvisvar sinnum því sem ég hafði skrifað. Þá þurfti ég að byrja aftur og þó ég hafi bölvað missinum er ég nú þeirri skoðunar að ritgerðin hafi batnað eftir því sem ég skrifaði hana oftar. Ég vara þó lesandann við, ég er enginn sérfræðingur heldur leikmaður sem hef ánægju af svona vangaveltum.
Hvaða búr er um að ræða?
Búrfell við Þjórsárdal og Hekla með snjóskellum. |
Forliður nafnsins Búrfell er líklega dreginn af hinum fornu útibúrum, sem stóðu ein sér og í voru geymd matvæli, dýrir munir og svo framvegis. Þau gátu staðið nokkuð frá jörð svo að skepnur kæmust ekki í þau.Þetta skýrir ekki málið neitt sérstaklega vel og verður að teljast frekar ófullnægjandi skýring.
Búrfell standa oft stök og skera sig úr að lögun, og minna sum þeirra á hús.
Á hinum ágæta vef ferlir.is er fjallað um gíginn Búrfell í Heiðmörk og vitnað í vef Örnefnastofnunar um nafnið. Örnefnastofnun er nú ekki lengur til sem slík heldur var gerð að deild innan Árnastofnunar og vefurinn ekki lengur finnanlegur. En á Ferli segir eftirfarandi (greinaskil og feitletranir eru mínar):
En hvers vegna ætli fjöll heiti Búrfell? Það fyrsta sem kemur væntanlega upp í hugann er búrhvalur því ef litið er á mynd af slíku dýri þá eru ákveðin líkindi með útliti hvalsins og sumum Búrfellum einkum þeim sem eru stapar.
Þar sem fjöllin þykja oft lík að lögun hefur stundum verið talað um Búrfellslag eða Búrfellslögun fjalla.
Það er til önnur skýring á nafninu og hún er sú að það tengist matargeymslu og þá helst stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr.“
Sum Búrfellin eru kölluð Matarfell af sjó svo sem Búrfell á Snæfellsnesi og Búrfell í Reykjarfirði á Ströndum en Búrfell á Gnúpverjaafrétti er kallað „fjallið fyrir innan Heklu“ og Búrfell á Tjörnesi er kallað Kistufell. Ástæða þess er sú að sjómenn trúðu því að ef þeir nefndu Búrfell á nafn gætu þeir egnt á sig búrhvalinn. Þetta voru því svokölluð varúðarnöfn. Talið er að það séu a.m.k. 47 fjöll hér á landi sem bera nafnið Búrfell.Þetta er nú aðeins bitastæðara og nothæfara. Á Vísindavefnum er getið um „hin fornu útibúr“. Líklega hafa þau verið geymslur, byggðar til að geyma matvöru og hugsanlega byggð þannig að vindur blási um þau eins og hjallar þar sem fiskur er þurrkaður.
Búr og kjölur
Búrfell og Borgarfjörður eystri. |
Gæti verið að orðið „búr“ hafi haft aðra merkingu en í dag, jafnvel að það hafi verið einskonar útlitslegt orð, ef ég má orða það þannig? Um leið kemur orðið „kjölur“ upp í hugann. Það var áður haft um ásinn, tréstykkið, sem liggur frá stefni trébáts og aftur í skut. Síðar hefur orðið færst yfir á allan þann hluta bátsins eða skips sem er í sjó enda víst að kjölur, líkur þeim sem hér hefur verið lýst, er ekki til á stálskipum.
Gæti verið að „kjölur“ og „búr“ séu andheiti? Hið fyrrnefnda gæti átt við kjalarásinn en hið síðara um það sem snéri inn í bátinn … Jafnvel gæti „búr“ verið einhvers konar mænir á húsi, það sem hæst ber.
Orðsifjafræðin
Hvers vegna er hvalur kenndur við „búr“? Er það vegna þess að hvalurinn var notaður í fæðu eða var það vegna útlitsins? Líklega er ágætt að verja dálitlum tíma í að kanna þetta.Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar segir:
Búrhvalur. |
Búrhvalur k., búrhveli h., búri k. ´sérstök tannhvalategund (physeter macrocephalus)´; sbr. nno. [miðnorska] burkval um óvissa hvalatengund. Uppruni óljós. Oftast talið leitt af búr og sé þá átt við lýsisforðann í höfði hvalsins. Vafasamt. Orðið gæti eins verið sk. fi [fornindverska]. bhuri- ´stór´, sbr. býri eða nno. bura ´öskra, baula’, sbr. söguna um nauthvelið og baul þess, og nno. [miðnorska] buril, burul ´nautkálfur, uxi´. Sjá burung(u)r.
Búrfell á Sólheimahálsi í Austur-Húnavatnssýslu. |
Þó tilvitnanir í Orðsifjabókina sé eflaust dálítið flóknar finnst mér engin goðgá að álykta af þessu að orðið „búr“ merki eitthvað stórt. Sögnin að öskra yfirgnæfir tal eins og alkunna er og naut er stórt dýr svl dæmi séu tekin úr orðsifjabókinni.
Í sömu bók segir:
1 Buri eða Búri k. goðsögul. Nafn á föður Bors eða Burs, föður Óðins. Uppruni óviss. Oftast lesið Buri og þá talið merkja þann sem eignast afkvæmi eða son, sbr. bur. Aðrir ætla að orðið sé sk. fi. [fornindverska] bhuri- ´stór´eða mno. [miðnorska] bura ´öskra´, sbr. að Buri eða Búri var risaættar, af Ými kominn. Ath. búrhvalur.
Þarna fannst mér ég vera kominn í feitt þangað til ég rakst á eftirfarandi:
2. Buri eða Búri k. dvergsheiti. E.t.v. sk. búri (1).Komum síðar að nöfnum sem tengjast Búra. Af þessu má draga þá ályktun að „búri“ geti þýtt hvort tveggja, stórt og lítið, sbr. risa eða dverg. Það kann þó að vera misskilningur.
Loks er ástæða til að tiltaka þriðju tilvitnunina í Orðsifjabókina. Hún er svona:
1. búri k. ´ruddi, dóni, durgur; aðsjáll maður, nirfill; íbúi (verslunar)borgar´. To. [tökuorð] úr mlþ. [nýlágþýsku] bure ´bóndi´, sk. [skylt] búr og búa (3).Er eitthvað hér sem hönd á festir? Hugsanlega má telja að „búr“ sé eitthvað stórt eða það merki hús eða matargeymslu. Engin af ofangreindum tilvitnunum tekur til útlits, ekkert skýrir almennilega „búrfellslagið“.
Ég leyfi mér þó að draga þá ályktun aftur að „búr“ merki eitthvað sem er stórt. Hins vegar verður að hafa það í huga að Búrfell landsins eru afar mismunandi í útliti og stærð og jarðfræðilega eru þau ekki eins.
Fornritin
Sæl væri egÞetta fallega kvæði er úr Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga Bárðardóttir orti það er hún kom til Grænlands eftir að hafa hrakist þangað frá Íslandi. Hún var komin með heimþrá og saknaði heimahaganna. Í sögunni segir: „Þessi örnefni öll eru á Snjófellsnesi“.
ef sjá mættag
Búrfell og Bala,
báða Lóndranga,
Aðalþegnshóla
og Öndvertnes,
Heiðarkollu
og Hreggnasa,
Dritvík og möl
fyrir dyrum fóstra.
Af þessu má draga þá álykta að snemma eftir landnám hafi örnefni myndast og þar með fékk fjall á Snæfellsnesi nafnið „Búrfell“ (sjá merkingu nr. 7 á kortinu). Í þessu sambandi má geta þess að Grímur Rögnvaldsson sá sem nam Grímsnes bjó að Búrfelli (sjá merkingu nr. 38 á kortinu). Líklega var bærinn samnefndur fjallinu fyrir ofan.
Þetta var mér hvatning til að fletta í gegnum önnur fornrit þó svo að ég minnist þess ekki að hafa séð orðið „búr“ í þeim. Enda varla von, flestir leikmenn lesa vegna söguþráðarins og smáatriðin hverfa.
Ég fór því í gegnum Fornaldarsögur Norðurlanda, Gylfaginningu, Heimskringlu, Íslendingasögur, Landnámubók og Jómsvíkingasögu. Leitaði að öllu því sem tengst gæti búri, Búrfelli eða fólki sem ber nafnið Búri. Margt merkilegt fannst í þessum ritum.
Líklega er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að málið hefur breyst talsvert frá því að fornsögurnar voru ritaðar. Ekki er víst að ég átti mig á öllum blæbrigðum sem málfræðingar og fornritaspekingar koma glöggt auga á. Væntanlega fæ ég sendar leiðréttingar sem ég reyni þá jafnóðum að koma inn í þessa samantekt.
Við skulum líka hafa hugfast að matur er viðkvæmur og það hafa fornmenn án efa vitað. Þar af leiðir að þeir leituðu ýmissa ráða til að geyma hann sem lengst. Án efa vissu þeir að kæling hjálpar til. Því gátu búr verið stök hús, staðsett annað hvort þar sem um gustaði um eða að þau voru grafin í jörð.
Að öðru leyti er gott ráð að nota hugarflugið þegar eftirfarandi tilvitnanir í fornritin eru skoðaðar.
Laxdæla
Þar eru nefnd „búr“ ótal sinnum sem og „útibúr“. Í kafla 55 segir:Síðan riðu þeir að selinu. Selin voru tvö, svefnsel og búr.Hér er greinilega átt við að húsin hafi verið tvö, bæði nefnd sel. Annað hafi verið íverustaður en hitt matargeymsla. Búrið er ekki hluti af öðru hús, t.d. herbergi, heldur sérstakt hús.
Njáls saga
Í Njálssögu er víða talað um „búr“ og „útibúr“. Í sögunni gerist afdrifaríki atburður er þræll Hallgerðar fer að skipun hennar og stelur mat í Kirkjubæ:Síðan fór hann til útibúrs og lauk upp og klyfjaði þaðan tvo hesta af mat en brenndi búrið og drap hundinn. Hann fer upp með Rangá. Þá slitnar skóþvengur hans og tekur hann hnífinn og gerir að. Honum liggur eftir hnífurinn og beltið.Í 109. kafla segir af Höskuldi Hvítanesgoða sem tók á móti Njálssonum, fóstbræðrum sínum:
Hann hafði látið taka ofan skála sinn en hann átti útibúr þrjú og voru þau búin mönnum að sofa í.Líklega má gera ráð fyrir að matargeymslur Höskuldar hafi verið allstórar og góðar fyrst þeim var hægt að breyta í gististaði. Þetta notaði Mörður til að sá fræjum tortryggni hjá Skarphéðni er hann sagði:
En mér þykja þau ekki minni fjörráð er hann bauð þér til veislu og skipaði þér í útibúr það er fyrst var húsum og var þar borinn að viður alla nóttina og ætlaði hann að brenna yður inni.
Fljótsdæla saga
Í Fljótsdælasögu er ýmist talað um „búr“ eða „útibúr“ og virðist það vera eitt og hið sama. Eftirfarandi er úr 17. kafla:Hann sat í útibúri fyrir ofan hús. Þar var inni varningur hans. Ekki hafði hann verið við fund þennan og ekki hafði hann vitað til að styrjöld sjá hafði verið. Konan hleypur til búrsins. Þetta var vinnukona hans. Gunnar sat í dyrum útibúrsins og fiðraði örvar.Þarna segir beinlínis að búr hafi ekki verið við húsið heldur fyrir ofan það, má hugsa sér að það hafi verið gert svo vel trekkti í gegn svo matvarann héldist köld.
Egils saga
Í 78. kafla segir:Þá hljópu þrælar hans á brott. Þeir komu fram um nótt að Þórðar á Lambastöðum og báru þar eld að húsum og brenndu þar inni Þórð og hjón hans öll, en brutu upp búr hans og báru út gripi og vöru; síðan ráku þeir heim hross og klyfjuðu og fóru síðan út til Álftaness.Af þessu má ráða að „búr“ hafi ekki endilega verið matargeymsla heldur geymt margvíslega aðra vöru. Engu að síður er óljóst hvort þrælarnir hafi brotið upp fleiri en eitt búr, það er matarbúr sem og önnur búr.
Eyrbyggja
Í 20. kafla segir:„Það skal sem yður líkar," segir Katla og bað matselju bera ljós fyrir þeim og lúka upp búri „það eitt er hús læst á bænum.“Búr Kötlu hefur án efa verið matargeymsla enda er matseljan fengin til að opna. Hið merkilegast er að búrið var læst. Það hef ég ekki rekist fyrr á í flettingum mínum. Katla segir búrið eina læsta húsið á bænum. Gæti þetta ekki bent til að það hafi verið stakt hús, utan við önnur?
Í 51. kafla sögunnar er að finna einstæða og myndrænu lýsingu tengda Fróðárundrum:
Og er menn komu í rekkjur heyrðu þeir hark mikið í búrið. Var þá farið að forvitnast hvort eigi væru þjófar inn komnir. Og er menn komu til búrsins var þar sén kona mikil. Hún var nökvin svo að hún hafði engan hlut á sér. Hún starfaði að matseld. En þeir menn er hana sáu urðu svo hræddir að þeir þorðu hvergi nær að koma.Nakin kona var við matseld og það hræddust fornmenn … Þetta minnir á ekkert annað en er Freydís Eiríksdóttir hins rauða skelfdi skrælingja á Vínlandinu góða er hún tók „brjóstið upp úr serkinum og slettir á sverðið“.
Hin nakta kona hét Þórgunnur, suðureysk að uppruna. Er þarna var komið sögu var hún steindauð, hafði gengið aftur, nakin, og var við eldamennsku. Það skondnasta kemur fram í sögunni að morguninn eftir átu menn þann mat er hin látna kona hafði matbúið og varð engum meint af …
Þetta er þó allt aukaatriði í þessu samhengi. Hitt skiptir máli að hægt var að matbúa í búrinu, það var ekki einungis geymsla. Gæti það hafa verið eldhús líka? Og hver er munurinn á „búri“ og „eldhúsi“? Þegar það er orðað þannig í ofangreindri tilvitnun að konan hafi verið við „matseld“ bendir það til að opinn eldur heldur hafi verið í búrinu og það því verið hvort tveggja, eldhús og búr. Það kemur hins vegar ekkert á óvart að matseld hafi verið stunduð í sérstöku húsi, á íslensku heitir það eldhús og hefur nafnið varðveist til þessa dags. Munurinn er þó sá að eldhúsið er nú eitt af herbergjum íbúðar.
Fóstbræðra saga
Í Fóstbræðrasögu segir af Þormóði Kolbrúnarskáldi á Grænlandi. Hann hafði særst í átökum og þurfti tíma til að jafna sig. Í upphafi 24. kafla segir:Þá er Þormóður var orðinn heill maður þess er Falgeir hafði á honum unnið þá fluttu þeir Skúfur og Bjarni Þormóð heim á Stokkanes og varðveittu hann þar á laun í einu búri. Þar var Þormóður hinn þriðja vetur. Þann vetur seldu þeir Skúfur og Bjarni bæinn á Stokkanesi og aðrar jarðir þær sem þeir áttu og svo kvikfé og ætluðu að ráðast í brott af Grænlandi.Þetta orðalag bendir líklega til þess að búrið hafi verið fjarri öðrum húsum og nægilega stórt til að maður gæti búið þar með öðru sem þar var geymt. Og það í heilan vetur.
Grettis saga
Í 30. kafla Grettissögu er greint frá ferðum Grettis. Þar segir:Og meðan þeir voru fyrir sunnan heiðina fór Grettir heiman frá Bjargi og með honum tveir húskarlar Atla. Þeir riðu yfir til Búrfells og þaðan yfir hálsinn til Hrútafjarðar og komu til Mela um kveldið. […]
Þeir voru fimm saman, riðu uns þar til er þeir komu á Hrútafjarðarháls vestur frá Búrfelli. Þar stendur steinn mikill er kallaður er Grettishaf. Hann fékkst við lengi um daginn að hefja steininn og dvaldi svo þar til er þeir Kormákur komu.Hér er sagt frá Búrfelli sem merkt er með 21 á kortinu. Þar hjá er samnefndur bær en óljóst er hvort höfundur Grettissögu hafi átt við bæinn eða fjallið, en það skiptir líklega litlu máli.
Gísla saga Súrssonar
Í Gíslasögu Súrssonar segir svo í 25. kafla af Gísla í Hergilsey:Gísli er ávallt í jarðhúsi þá er menn koma í eyna. En Ingjaldur var góður gestgjafi og býður Helga gisting; þar var hann um nóttina.
[…]
Nú er sagt að Þorgerður gengur til jarðhússins og ætlar að gefa Gísla dögurð en þili er á millum búrsins og þess er Helgi lá í. Þorgerður gengur í brott úr búrinu. Klífur Helgi upp á þilið og sér að þar var manni matur deildur og í því kemur Þorgerður inn og vinst Helgi við fast og fellur ofan af þilinu.Búrið hefur verið í jarðhúsi, það er húsi sem er niðurgrafið. Hugsanlega er að til að kælingar. Fram kemur, og ekki í fyrsta sinn, að hægt var að leyfa fólki að gista í búrinu eða í sama húsi og búrið var.
Hallfreðar saga vandræðaskáld
Í fjórða kafla Hallfreðarsögu er í kvæði talað um „búrhund“ og víst er að orðið er ekki til neinnar upphafningar. Síðar í öðru kvæði er getið um „búr“ og átt við matarbúr.Hávarðar saga Ísfirðings
Í 15. til 18. kafla er sagt frá því er menn „ryðja búr“, það er tæma öll föng úr því. Raunar er sagan af honum Atla í Otradal einstaklega fyndin. Hann á að hafa verið giftur Þórdísi sem var systir Steinþórs Þorlákssonar á Eyri, en frá honum segir í Eyrbyggju. Samkvæmt þeirri bók átti Steinþór aðeins eins systur, hana Helgu, en það er önnur saga.Heiðarvíga saga
Í Heiðarvígasögu segir í 16. kafla:Bær heitir að Búrfelli milli Svínavatns og Blöndu. Það er á Hálsum út. Þar bjó sá maður er Eiríkur hét og var kallaður viðsjá. Hann var skáld og eigi lítill fyrir sér.Enn er bær undir Búrfelli á Sólheimahálsi, raunar tveir, Litla-Búrfell og Stóra-Búrfell (sjá merkingu nr. 22 á kortinu).
Víga-Glúms saga
Í 18. kafla Víga-Glúmssögu segir:Vel hefir þú einurð haldið hér til en nú skýjar á heldur og finnst nú það á að þú munt oftar hafa staðið nær búrhillum og ráðið um matargerð með móður þinni en gengið að hestavígum og er þann veg litt skegg þitt eigi síður.Varla þarf að skýra þessa málsgrein svo niðurlægjandi sem hún er. Hún er þó merkilegt fyrir þær sakir að þarna kemur fram að hillur hafi verið í búrum. Þó sumum finnist það sjálfsagt að hillur hafi verið notaðar hefur höfundum fornsagna ekki þótt sjálfsagt að greina frá því, fyrr en þarna.
Svarfdæla saga
Í 18. kafla í Svarfdælasögu segir:Ekki er sagt frá ferðum Klaufa fyrr en hann kemur upp að Krókamelum gegnt Búrfellshúsum og þar er hann fyrir fjallmönnum við vaðið.Þarna vekja „Búrfellshús“ athygli lesandans. Höfundur á eflaust við bæinn Búrfell sem enn er þarna í Svarfaðardal. Ofan hans er Búrfellshyrna sem ábyggilega hét áður fyrr Búrfell. Fjallið er þó ekki tekið með í upptalninguna enda ekki ótvírætt að fjallið hafi borið nafnið.
Landnáma
Fróðlegt að fletta upp í Landnámu. þar segir frá Katli Örlygssyni landnámsmanni er átti erfitt með að finna sér samastað. Hann tapaði þrælum sínum sem misstu stjórn á sér með hörmulegum afleiðingum:Þrælarnir báru eld að húsum og brenndu Þórð inni og hjón hans öll; þeir brutu þar upp görvibúr og tóku vöru mikla og lausafé; síðan ráku þeir heim hross og klyfjuðu; þeir snöru á leið til Álftaness.Ekki veit ég hvað „gjörvibúr“ en auðveldlega má hugsa sér að það sé frekar vel byggt og glæsilegt og jafnvel full matar.
Landnáma kemur á óvart og styður ekki alveg við röksemdafærsluna. Í 69. kafla er fjallað um víg í Noregi og þar:
Þá komu Öndóttssynir þar snemma um morguninn að svefnbúri því, er Auðun lá í, og skutu stokki á hurð.Hvað er „svefnbúr“? Hér hefur verið gengið að því vísu að „búr“ merki matargeymsla. Gæti verið að „búr“ merki einfaldlega vistarvera eins og herbergi í þeim skilningi sem við þekkjum það orð. „Búr“ gæti einfaldlega merki einfaldlega hús með einu herbergi, nokkurs konar skáli eða „hytta“ eins og Norðmenn nefna það í dag?
Gylfaginning
Í Gylfaginningu er í 6. kafla sagt frá manni nokkrum sem var afi Óðins. Hér er allur kaflinn, hann er örstuttur og skiljanlegri í heild sinni:Þá mælti Gangleri: „Hvar byggði Ýmir, eða við hvað lifði hann?“
Hár svarar: „Næst var það þá er hrímið draup að þar varð af kýr sú er Auðhumla hét, en fjórar mjólkár runnu úr spenum hennar, og fæddi hún Ými.“
Þá mælti Gangleri: „Við hvað fæddist kýrin?“
Hár svarar: „Hún sleikti hrímsteinana er saltir voru. Og hinn fyrsta dag er hún sleikti steina kom úr steininum að kveldi mannshár, annan dag mannshöfuð, þriðja dag var þar allur maður. Sá er nefndur Búri. Hann var fagur álitum, mikill og máttugur. Hann gat son þann er Bor hét, hann fékk þeirrar konu er Bestla hét, dóttir Bölþorns jötuns, og fengu þau þrjá sonu. Hét einn Óðinn, annar Vilji, þriðji Vé. Og það er mín trúa að sá Óðinn og hans bræður munu vera stýrandi himins og jarðar. Það ætlum vér að hann muni svo heita. Svo heitir sá maður er vér vitum mestan og ágætastan, og vel megið þér hann láta svo heita.“Hérna er loks kominn Búri sá sem nefndur var að ofan í Orðsifjabókin. Ekki veit ég hvar það kemur fram að hann hafi verið stór en þarna er hann sagður mikill sem gæti haft aðra merkingu en stærð hans.
Ólafs saga Tryggvasonar
Í Ólafs sögu Tryggvasonar er sagt frá konungi í Vindlandi sem hét Búrisláfur, líklega samsett svona; Búri-sláfur. Hvað sláfur merkir veit ég ekki. Í íslensku Wikipediunni segir um annan með þessu nafni, líklega niðja hans:Ríkissa var dóttir Búrisláfs 3., konungs Póllands, og seinni konu hans Salóme af Berg. Hans dætur voru þær Geira, Gunnhildur og Ástríður.Eftirfarandi er þýðing úr sænsku Wikipediunni en þar segir:
Rikissa var dotter till kung Boleslav III av Polen och Salome av Berg.Hvernig skyldi nafnið Búrisláfur hafa orðið að Boleslav eða öfugt? Endingin „slav“ er algeng í slavneskum nöfnum, t.d. Jaroslaw, Stanislaw, Miroslava og fleira.
„Búrisláfur“ þessi er örugglega hinn sami og greint er frá í Jómsvíkinga sögu. Þar er nafnið samt ritað á annan máta máta „Búrizláfur“.
Heimskringla
Í Heimskringlu eru sagðar fjölmargar sögur Noregskonunga. Í Sögu Inga konungs og bræðra hans segir í 6. kafla:Þeir Sigurður gengu þar upp í elding nætur og komu á óvart og tóku hús á þeim og vildu leggja eld í býinn en Benteinn komst út í búr nokkuð með herklæðum og vel búinn að vopnum og stóð fyrir innan dyrin við brugðið sverð og hafði skjöld fyrir sér og hjálm á höfði, var þá búinn til varnar. Dyrnar voru heldur lágar. Sigurður spurði hví þeir gengju eigi inn. Þeir svöruðu að engi var einn fús til.Þarna er dálítil lýsing á búri sem maðurinn flýði inn í því sagt er að dyrnar hafi verið heldur lágar. Gæti það hafa verið reyndin?
Í Magnúsar sögu Erlingssonar kemur fyrir enn ein útgáfa á nafni sem dregið er af orðinu „búr“
Þeir fóru suður til Danmerkur á fund Valdimars konungs og þeirra Búriss Heinrekssonar, bróður Inga konungs.
Landnámubók Sturlu
Í 46. kafla Landnámubók segir:Oddleifur var faðir Gests hins spaka og Þorsteins og Æsu, er átti Þorgils son Gríms úr Grímsnesi. Þeirra synir voru þeir Jörundur í Miðengi og Þórarinn að Búrfelli.Átt er við Búrfell í Grímsnesi (sjá merkingu nr. 7 á kortinu).
Burfjell í Rogan. |
Noregur
Þó svo að ég hafi dvalið í Noregi og lært eitthvað í því fallega máli er ég langt frá því sérfræðingur í orðsifjafræði þarlendra. Hitt veit ég í gegnum hann Gúgöl vin minn, að það eru að minnsta kosti tvö Búrfjöll þarna fyrir austan og bæði með þessu líka laglega „búrfellslagi“.Hið fyrra er Burfjell í Rogan og hið seinna er Burfjell í Fusa. Merkilegt er að skoða myndir af þessum tveimur fjöllum. Eru þau með „Búrfellslagi“? Mér finnst nokkur líkindi
Burfjell í Fusa. |
Stapi
Mörg Búrfellin eru keimlík í laginu og ekki síst þau sem bera jarðfræðilega heitið stapi eins og Búrfell við Þjórsárdal, Búrfell austan Mývatns og ábyggilega fleiri.Hvað er þá stapi, svona jarðfræðilega séð. Jú, hann myndast þegar eldgos verður undir jökli. Þá hlaðast upp gosefni í plássið sem eldgosið bræðir í jöklinum. Um leið og glóandi kvika snertir vatnið springur hún og myndar smágerð gosefni, en vegna þess að jökullinn virkar sem mót dreifast þau ekki heldur hlaðast smám saman upp. Þegar svo mikil gosefni hafa hlaðist upp að eldvirknin nær upp fyrir vatnsborðið rennur loksins hraun. Eftir að gosi lýkur heldur jökullinn að fjallinu, rétt eins og mót og með tímanum, og vegna hita og þrýstings, verður til móberg úr lausu gosefnunum.
Þetta gerðist margoft hér á landi á ísöld og þegar jökullinn hvarf urðu þessi fjöll eftir. Stapar er oftast hringlaga eða jafnvel ílangir. Efst er oft hraunskjöldur, dyngja, en undir er móberg. Sambærileg gos sem urðu eftir að ísöld lauk og jöklar hurfu er dyngjur, en það er nú allt annað mál.
Niðurstaða
Ég held að nú megi slá því föstu að búr sé ekki aðeins matargeymsla heldur hafi líka ýmislegt annað verið geymt í þeim. Mörg dæmi eru til í fornritum um að búr hafi verið notuð sem íverustaðir. Búr sem matargeymslur hafa líklega staðið þar sem gustar um enda hafi tilgangur verið að halda matvöru kaldri svo hún geymdist sem lengst. Dæmi um slíkt eru fiskhjallar nú til dags. Einnig er til að búr hafi verið grafin í jörðu í sama tilgangi.Óljóst er hins vegar hvernig búr hafa litið út. Draga má þá ályktun af helstu fjöllum sem heita Búrfell að þau hafi verið með frekar flötu þaki, að minnsta kosti ekki bröttu. Þakið kann einnig að hafa verið ílangt.
Orðið „búr“ merkti líklega til forna eitthvað sem var stórt og mikið um sig og þá hefur hugsanlega ekki verið miðað við hús sem var matargeymsla. Orðið hafi einfaldlega verið heiti á stóru húsi eða nafn á stórum manni. Þess vegna er stórt fjall nefnt Búrfell í vegna þess að það er einfaldlega stórt fjall, upprunalega er það stórt stakt fjall.
Hvalurinn var þar af leiðandi verið nefndur búrhvalur vegna þess að hann er stærri og meiri um sig en flestir aðrir hvalir. Nafnið kom því ekki til vegna lýsis eða kjöts.
Hitt er svo óljóst hvers vegna stórt fjall er nefnt fell. Í Noregi eru eins og áður sagði að minnsta kosti tvö fjöll sem heita Burfjell. Á íslensku örnefnunum kann að vera málfræðileg skýring sem er sennilegri en aðrar, til dæmis náttúruleg.
Myndirnar
Gagnlegt væri að hafa myndir af öllum Búrfellunum og bera þau saman og flokka eftir útliti. Ég er þó enginn sérfræðingur í þessu og hef ekki beinlínis eytt tíma í að taka myndir af Búrfellum landsins.Fyrir tilviljun hafa sum þeirra ratað inn á myndir hjá mér og af öðrum hef ég með fúsum og frjálsum vilja tekið mynd.
Þessar myndir eru allar hér að ofan. Með því að bera þær saman má með góðum vilja finn út semeiginlegt útlit sem jafnvel er hægt að kalla „búrfellslag“
Að endingu vona ég að einhver hafi haft gaman að þessari samantekt og tek það fram að ég gæti hafa gert einhverjar vitleysu í þessu, misritað eða snúið sjálfsögðum hlutum á hvolf. Fyrir alla muni ekki misvirða það heldur væri ég afar þakklátur að fá leiðréttingar. Eins væri gaman að fá myndir til að fylla upp í söguna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli