þriðjudagur, 26. mars 2013

Leiðbeiningar um val á gönguskóm




Æ algengara er að heyra af fólki sem meiðir sig á ökkla í fjallgöngum. Fólk getur meitt sig og slasast hvar sem er, úti á götu eða á Þverfellshorn Esju. Hvers vegna er ekki hægt að komast klakklaust úr gönguferðum?

Hlauparar 

Nú þykir mikið fjör í því að hlaupa upp á fjöll og niður aftur. Út af fyrir sig er að svo sem ágæt skemmtun og líkamsþjálfun. Hitt er verra að þeir skór sem hlauparar notar eru lágir, að vísu með góðum sóla en engum stuðningi við ökklann. Ekki skal heldur amast við þessu heldur því að fólk skuli leita eftir léttari og einfaldari skóm í almennar fjallgöngu. Hins vegar má ekki líta á hlaupaskó sem góða skó fyrir fjallagöngur. Þeir eru það ekki.

Óslétt land 

Þegar komið er í óslétt land, klungur og snjó er mikilvægt að vera í uppháum skóm, þeim sem ná upp fyrir ökklann og veita honum stuðning. Skórinn á að vera þétt reimaður þannig að fóturinn renni ekki til í skónum. Gerist það eru skórnir og stórir. Valdi þétt reimaður skórinn núningi á legg fyrir ofan ökkla eru skórnir ekki réttir.

Strigaskór 

Aldrei skyldi nota strigaskó í fjallgöngur. Þeir henta ekki til þess, eru alltof linir, sólinn er mjúkur og ná ekki einu sinni upp að ökkla. Til eru skór sem líkjast strigaskóm, eru léttir með góðum sóla en engu að síður ná þeir ekki upp á ökkla. Ekki nota slíka skó í fjallgöngur eða lengri göngur. Myndin hér til hliðar gúglaði ég á netinu. Þetta eru svokallaðir „hiking shoes“ en ekki „hiking boots“. Þeir fyrrnefndu eru eingöngu gönguskór fyrir sléttlendi. Fínir innanbæjar en á fjöllum eru þeir gagnslausir vegna þess að öllum ætti að vera annt um ökklana.

Leðurskór 

Bestu skórnir í fjallgöngu og lengri göngur eru leðurskór, helst þeir sem eru með smávegis gúmmívörn upp fyrir sóla. Það sparar skóna, tekur af slit og vatn. Notum leðurskó á Laugaveginum og á Hornströndum og í dagsferðum á einstök fjöll eins og Esjuna og Vífilsfell.

Af biturri reynslu held ég því fram að góðir gönguskór séu mikilvægasti búnaður göngumannsins. Sé hann illa búinn til fótanna, fær blöðrur eða hælsæri er lítil skemmtun af gönguferðinni. Skórnir eru henta þá ekki göngumanni.

Fóðraðir skór 

Góðir gönguskór eiga að vera fóðraðir og svo þægilegir að hægt sé að vera í einum sokkum, en þeir verða að vera góðir. Best er að velja sokka úr blöndu af gerviefnum og ull, þá sem eru með þéttingar fyrir hæl og tá. Slíkir sokkar eru framleiddir hér á landi og reynast vel.

Þegar ég var að byrja í fjallaferðum var lítið úrval af gönguskóm í verslunum. Ég man að eitt árið notaði ég gamla skíðaskó sem voru með nokkuð stífum sóla. Í þeim var gott að ganga en gallinn var nokkuð stór og hann var sá að sólinn var sléttur og markaði ekki fyrir hæl.

Vibram sóli

Í tugi ára hef ég aldrei keypt öðruvísi skó en með góðum sóla, lít fyrst á hann. Sé ekki gula merkið með nafninu Vibram á sólanum þá kaupi ég ekki skóna. Sjá myndina hér fyrir hér til hliðar.

Viðmiðanir 

Eftirfarandi eru þær viðmiðanir sem ég nota og tek það fram að ég þarf að fara að kaupa gönguskó sem allra fyrst:

  1. Vibram sóli (merktur með gulu merki í sólann), sumum finnst Vibram hálir í bleytu en ég hef aldrei orðið var við það.
  2. Helst leður skór fyrir fjallaferðir, bestir í bleytu
  3. Tungan á ekki að vera laus eins og í venjulegum skóm heldur saumuð við skóinn á hliðum og upp
  4. Skórnir eiga að vera fóðraðir, það er vel bólstraðir
  5. Góð en mjúk fóðrun á að vera efst svo þeir nuddi ekki legginn
  6. Oftast er gott að velja ská með gúmmívörn á tá og jafnvel allan hringinn.
  7. Veljum réta stærð, táin má ekki snerta framendann, þar má muna allt að sentimetra
  8. Ekki kaupa ódýra gönguskó. Ódýrir skór eru bara ódýrir, þeir hafa enga kosti fram yfir dýrari.
Eflaust má bæta hér einhverju við en þetta er svona í stórum dráttum þau atriði sem ber að hafa í huga við val á góðum gönguskóm. Og nú gleymi ég einu mikilvægu, munum að á göngu þrútnar fóturinn talsvert. Þess vegna mega skór ekki vera of þröngir, þeir verða að vera dálítið rúmir.

Ódýrir skór eru almennt lélegir  

Ég hef í sjö ár átt Scarpa gönguskó og þeim hef ég nú slitið upp svo gjörsamlega að fyrir löngu hefði ég átt að skipta. En ennþá er ég bara mjög ánægður með skóna.

Núna finnst mér gönguskór orðnir dýrir og hef því dregið við mig að kaupa nýja. Ég fór um daginn í verslun sem selur gönguskó á innan við 10.000 krónur. Við nánari athugun fannst mér þeir ekki þess virði að kaupa þá.

Ég ráðlegg fólki eindregið að kaupa skó í góðum verslunum sem sérhæfa sig í að selja fatnað og útbúnað til útivistar. Ekki bjóða hættunni heim með lélegum skóm.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli