miðvikudagur, 13. mars 2013

Krummi krunkar úti á Hornafjarðarfljótsbrú




Hornafjarðarfljót og brúin
Stórmerkileg brú liggur yfir Hornafjarðarfljót. Hún er einbreið, var byggð um 1961 og er um 255 m löng. Á fréttavefnum visir.is er verið að agnúast eitthvað út í þessa fallegu brú sem er svo lík þeirri gömlu sem liggur yfir Markarfljót.

Eina staðreynd vita fæstir um Hornafjarðarfljótsbrúnna. Hún hefur innbyggðan takt og er þar af leiðandi einstaklega tónvís.

Þetta skal ég skýra nánar: Sé ekið yfir hana á bíl frá vestri til austurs á um 25 km hraða á klst. má óðar finna að til verður taktur, tamm, tamm, tamm ... Þá er upplagt að syngja „Krummi krunkar úti“ enda fellur rytminn í laginu algjörlega að bylgjunum í gólfi brúarinnar.

Að vísu er brúin ekki nógu löng til að hægt sé að klára lagið en þá má bara snúa við og aka aftur yfir brúna og fara aðeins hraðar.

Svo tónvís og söngelskur sem ég er þá hef ég lent í því að aka fram og aftur yfir brúna, einn eða með góðu fólki og við höfum sungið og sungið af hjartans lyst um hann krumma. Ekið aftur og aftur yfir. Einu sinni bakkaði ég yfir brúna og söng lagið afturábak. Það gekk ekki vel. Ók utan í tvisvar og mundi ekki línurnar.

Sé ekið frá austri til vestur tapast þessi taktur og krummalagið gengur ekki. Enn hef ég ekkert lag fundið sem þá hentar.

Svo verð ég að taka það fram að það er afar varhugavert að aka hratt yfir Hornarfjarðarfljótsbrú og skiptir engu hvort maður syngi, tali eða þegi. Hraðinn og taktfast gólfið getur orðið til þess að ökumaðurinn gleymi sér og endi á vegriðinu eða jafnvel kastist yfir það. Hvorugt ku vera gott.

Þetta hefur þó aldrei komið fyrir mig, - ég náði tímanlega stjórn á bílnum ... úff.

Myndina hérna fyrir ofan tók ég ofan af Viðborðsfjalli sem er vestan við fljótið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli