laugardagur, 14. desember 2013

Þórhallur Vilmundarson og náttúrunafnakenningin


 

Á árunum laust fyrir og um 1970 setti Þórhallur fram hina umtöluðu náttúrunafnakenningu sína og flutti um hana röð opinberra fyrirlestra í Reykjavík, við einstaklega góða aðsókn, enda fyllti hann þá Háskólabíó í nokkur skipti. Um þessi efni talaði hann einnig víðar um land, t.d. var hann í febrúar 1982 fenginn til að halda örnefnafyrirlestra í fæðingarbæ sínum Ísafirði. Við undirbúning fyrirlestranna hafði Þórhallur ferðast fram og aftur um allt land á jeppa sínum og tekið ógrynni af góðum ljósmyndum sem hann sýndi síðan máli sínu til stuðnings. Kenning hans var tvímælalaust sú djarflegasta og frumlegasta sem forystumaður í íslenskum fræðum kom fram með um langt árabil. Með tilkomu kenningarinnar vaknaði upp nýstárleg og gagnleg umræða um uppruna fjölda örnefna. Jafnvel var nú tekið að draga tilvist einstakra landnámsmanna í efa, og þótti sumum það reyndar mikil goðgá.
Þetta segir Björn Teitsson, fyrrum skólameistari á Ísafirði, í minningargrein í Morgunblaðinu í dag um Þórhall Vilmundarson, prófessor og fyrrum forstöðumann Örnefnastofnunar.

Grímnir 

Grímnir.
Svo vill til að í margar vikur hef ég verið að blaða í nokkrum bókum og þær hafa jafnan legið á borðinu hjá mér. Meðal þetta eru þrjá bækur sem bera nafnið „Grímnir, rit um nafnfræði“. Útgefandi var Örnefnastofnun Íslands og höfundur hins fjölbreytta efnis þeirra er áðurnefndur Þórhallur.  Fyrsta bókin kom út 1980, önnur bókin 1983 og sú síðasta 1996.

Þórhall þekkti ég ekkert. Hafði þó einu sinni eða tvisvar hitt hann að máli meðan ég gaf út tímaritið Áfangar. Ástæðan var einfaldlega sú að ég hafði keypt Grímni einhvern tímann 1982 og við það vaknaði áhugi minn á svokallaðri „náttúrunafnakenningu“ Þórhalls sem Björn Teitsson nefnir hér fyrir ofan.

Skortur á örnefnum 

Við lestur bókarinnar og raunar hinna tveggja sem á eftir komu vaknaði og treystist áhugi minn fyrir örnefnum. Snemma komst ég að þeirri staðreynd að örnefni á Íslandi eru fá og mörg hver eru hin sömu víða um landi. Þetta er einstaklega bagalegt fyrir ferðamenn enda ótækt að fjall beri einungis tölur sem er hæsti tindur þess. Þetta er engu að síður staðreynd. Niðurstaðan varð einfaldlega sú að örnefni eru ekki endanlegur sannleikur og ekki megi bæta við eins og svo margir halda.


Goðahraun á Fimmvörðuhálsi, eldfjallið Magni lengst til vinstri. Forn gígur hægra megin í forgrunni. Fyrir eldsumbrotin á Hálsinum 2010 lá gönguleiðin með honum, stundum var gengið á hann.
Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt,“ sagði Tómas skáld Guðmundsson í ljóði sínu Fjallgangan. Honum rataðist satt á munn. Þess vegna var ákveðið að gefa eldstöðvunum og hrauninu á Fimmvörðuhálsi nafn. Stóri gígurinn var nefndur Magni, sá minni Móði og hraunið Goðahraun enda heitir landið fyrir neðan Goðaland.

Skarpskyggni 

Í bókunum þremur fjallar Þórhallur Vilmundarson um fjölda örnefna. Rekur uppruna orða, ber þau saman við hliðstæð í öðrum tungumálum, skoðar staðhætti, ber þá saman við sambærilega staðhætti á Norðurlöndum og kemst svo að niðurstöðu. Þarna fór saman mikil menntun, þekking, skarpskyggni og fjölhæfni í einum og sama huga.

Góðaland 

Af því að ég nefndi Goðaland hér á undan er ekki úr vegi að greina frá því sem Þórhallur segir um örnefnið:

Frá Goðalandi. Myndin er tekin með miklum aðdrætti skammt frá Básum og horft til inn eftir dalnum, til austurs. .
Líklega hét G. upphaflega *Góðaland vegna góðra beitarskilyrða. Til samanburðar er Góðaland, suðurendi Vífilsstaðahlíðar, Gull., Godlendet í Stangehéraði á Heiðmörk (NGIII 167), Goathland (Godelandia um 1110) í Jórvíkurskíri (DEPN4, 199) o.s.frv. >Goðdalur, -ir. 

Emstrur 

Emstrur er skrýtið örnefni en það á í dag einkum við um landsvæði norðvestan við Mýrdalsjökul en gæti áður hafa náð talsvert sunnar, jafnvel allt að Ljósá sem telst nú til Almenninga. Þórhallur ræðir nokkuð ítarlega um örnefnið og þar er margur fróðleikurinn. Hér er hluti af umfjöllunin, lítilsháttar lagað til á mína ábyrgð (einnig vantar nokkur tákn sem finnast ekki á lyklaborðinu mínu):
Innri Emstruá, illfært skaðræðisfljót fór ekki mildilega með bílinn sem þarna sést. Brúin sést efst til hægri.
Nokkrar umræður hafa orðið um örnefnið Emstrur meðal fræðimanna. Á víkingaráðstefnu í Leirvík á Hjaltlandi 1950 fjallaði A.B. Taylor meðal annars um örnefnið Unst, sen svo heitir nú hin nyrsta Hjaltlandseyja, sem nefnd er Aumstr, Aurmtr, Qrmst í fornum heimildum.
Í umræðum á ráðstefnunni benti Jón Helgason á, að om- kynni að vera u- hljóðvarpsmynd rótarinnar am-, en hún kæmi fyrir í norrænum örnefnum og merkti 'erfiðleikar', t.d. Amager, Qmð í N-NOregi (nú Andöya). [...]
S. Bugge taldi eyjarheitið Qmð dregið af so. ama „gnide, skubbe“ og merkti þá 'eyja, sem núin er af hafi og vindum', en G. Knudsen hugði Amager hafa heitið í öndverðu *Amhakæ, þ.e. 'haki (oddi, sem veldur ama'.  
J. Kousgaard Sorensen telur, að fyrri liður Amager sé Ame, heiti sundsins milli Sjálands og Amakurs, af *am- nudda', nafnið þá leitt af því, að bátarhafi kennt gruns , er þeir sigldu um sundið, og kunni sama vatnsrásarnafn (vanddragsnavn) að vera í hinum þekktu örnefnum Amsterdam, Emden og Ems. [...]
Stórkonufell er sunnarlega á Emstrun, sunnan við Innri-Emstruá. Þarna liggur gönguleiðin milli
Landmannalauga og Þórsmerkur sem oftast er nefnd Laugavegurinn.
Í grein um viðskeytið -str- í germönskum örnefnum segir Th. Andersson hins vegarm að Emstrur á Íslandi sé eflaust ekki örnefni sem myndað sé sem slíkt með -str- viðskeyti, enda séu slík -str- örnefni ekki til á Íslandi.
Nafnið Emstrur mun dregið af so amstra 'þrælka; kveinka sér', no. amstur 'ómak; erfiði' sjá (Blöndal).
Sveinn Pálsson segir 1793, að Emstrur séu „formedelst Jökelelve nu om Stunder næsten ubefarlig ...“ 
Í sóknarlýsingu 1839 segir um Emstrur: „Verða þær lítt notaðar vegna ófærra vatna.“
Líklegt er því, að nafnið sé dregið af þessum erfiðleikum.
Fyrir leikmann er fengur að fá að lesa svona rökstuddan fróðleik. Það er nú alltaf einu sinni þannig að þegar maður hefur náð að kynna sér fræði sem falla vel að huga manns og ekki síður áhugamálum þykist maður hafa himinn höndum tekið, svo upplýsandi er þetta allt saman.

Ég trúi því að bæði leikmenn og fræðimenn framtíðarinnar eiga eftir að minnst Þórhalls Vilmundarsonar með virðingu og hlýju.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli