þriðjudagur, 17. desember 2013

En fjord skal ha et navn som ender på fjord ...



Esja séð frá Reykjavík.
Bláhnúkur við Landmannalaugar.
Þetta fjall þekkja allir enda höfum við Reykvíkingar það fyrir augunum nærri því á hverjum degi. Ekki er þó víst að allir þekki fjallið sem er á hinni myndinni.


Látum það vera enda er hér ekki um neina keppni að ræða. Munurinn á Esju og Bláhnúki við Landmannalaugar er talsverður en einna áhugaverðastur er munurinn á þessum tveimur örnefnum.

Ef ekki væri myndin segði nafnið Esja ekkert til um hvað um sé að ræða. Esja gæti þess vegna verið nafn konu, báts, bókar eða einhvers annars. Hins vegar fer enginn í grafgötur með að hnúkur er hluti fjalls og í þessu tilviki allt fjallið. Þetta beinir athyglinni að örnefnum.

Í bókinni Grímnir 1, riti Örnefnastofnunar um nafnfræði, segir Þórhallur Vilmundarson á bls. 125, en hann er að ræða um Surtshellir sem líkur benda til að hafi einfaldlega heitið Surtur (Surtr) fyrr á öldum:

Breytingin Surtr > Surtshellir er í samræmi við hina ríku tilhneigingu til að bæta stofnlið við einliðað örnefni sem M. Olsen kallar „en tendens som i den historiske tid har gjort sig gjeldende så å si overallt í norsk navneskikk: en fjord skal ha et navn som ender på „fjord“, en elv (en å) et nafn som ender på „elv“ („å“), o.s.v.
Det er trangen til å utheve skarpt den ankelte lokalitet som har fört til dette, og trangen måtte melde sig fordi visse mangler blev merkbare ved den eldre navngivning.
Hvínsfjorðr har avlöst en eldre, usammensatt fjordnavn Hvínir ... Mosse-elven har avlöst Moss (*Mors) ...“ (NK V, 32-33) Sbr hér á landi Reyðr > Reyðarfjall (-Reyðarfjörður), *Trékyllir > - Trékyllisvík (G1) o.s.frv.

Er þetta nú ekki alveg stórundarlegt. Eða hvað myndi lesendum finnast ef þróun örnefna hefði fylgt þessu út í ystu æsar og þá værum við með fyrir augunum Esjufjall, Hengilsfjall eða Henglafell, Keilisfjall, Strútsfjall, Krákufell, Grábrókarfell, Baulufjall og álíka.

Hefði hins vegar þróunin ekki orðið á þennan hátt værum við að ganga á Vífil, Kistu, Helga, Búr, Sel ...

Eða er þetta komið út í öfgar hjá mér. Ef til vill er hér ekki um örnefnaþróun heldur breytingu sem sum örnefni taka vegna einhverra ástæðna sem okkur er ekki kunnar en önnur halda sínu. Engu að síður er þetta áhugaverðar vangaveltur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli