Fyrir um fimmtán árum reyndi ég að búa til íshelli í Skálafellsjökli en árangurinn var ekki mikill. Tilgangurinn var auðvitað sá að búa til ferðamannastað, viðkomu- og fróðleiksstað fyrir ferðamenn. Á þessum árum var ég framkvæmdastjóri Jöklaferða, fyrirtækis sem sá um vélsleða- og snjóbílaferðir um Vatnajökul og veitinga- og gistiaðstöðu auk ferðaskipulagninga í Austur-Skaftafellssýslu.
|
Komnir um fjóra til fimm metra inn í jökulinn. |
Við völdum okkur stað ofarlega í Skálafellsjökli þar sem jökullinn var ekki á mikilli hreyfingu. Á þessum tíma var alltaf mikil ákoma á jökulinn um veturinn og hún entist fram á haust. Þess vegna þurftum við að moka djúpa gryfju til að komast að ísnum.
Þegar þangað var komið notuðum við loftpressu til að sprauta vatni á ísinn og brjóta hann þannig. Þetta tókst og ísinn brotnaði smám saman og við náðum að komast inn í ísinn. Mest held ég að við höfum farið um það bil þrjá til fjóra metra inn í jökulinn.
|
Tryggvi Agnarsson. |
Þetta var svo gríðarleg mikil vinna. Ég hafði enga peninga í þetta og ákvað í upphafi að þetta yrði tilraunaverkefni og fékk vini og kunningja til að hjálpa til.
Þarna komu að málum Sigurður Árni Þórðarson, prestur, Tryggvi Agnarsson, lögmaður, Árni Jóhannsson, viðskiptafræðingur, Þorkell Þorkellsson, ljósmyndari, Sigurður Ólafsson, húsasmiður, Ögmundur Guðnason á Höfn og fleiri og fleiri. Allt hörkukallar og duglegir til vinnu. Margir þeirra áttu það sameiginlegt að trúa á verkefnið og höfðu oftast verið svo vitlausir að leyfa mér að teyma þá í alls kyns vitleysur
|
Við upphaf framkvæmda. |
Ég hafði áður mikið rætt við Fjölni Torfason á Hala um svona helli en hann og Þorgerður Arnórsdóttir, kona hans voru og eru stórmerkir frumkvöðlar. Það voru þau sem byrjuðu með bátsferðir á Breiðamerkurlóni, hófu síðar silungseldi á Hala og stofnuðu loks Þorbergssetur.
Þér dugar ein eldspýta, sagði Fjölnir og glotti. Ég vissi auðvitað ekki hvort hann var að gera at í mér eða væri fúlasta alvara. En hann hafði fræðilega rétt fyrir sér. Hitinn af logandi eldspýtu dugar til að bræða ísinn, að minnsta kosti lítilsháttar. Og svo leiddi hvað að öðru og loks var hann búinn að sannfæra mig um að ísinn myndi láta undan, hvaða aðferð sem ég beitti. Andaðu bara á hann, sagði Fjölnir og hló.
|
Við upphaf framkvæmda. |
Auðvitað reyndist þetta rangt hjá Fjölni. Ísinn er rosalega harður. Hann er mörg hundruð ára gamall og hefur myndast undir þrýstingi, mikið farg hvíldi á honum og þess vegna þarf meira en eldspýtu eða vatnsþrýstigræjur.
Já, hann var alveg déskoti harður og illur viðureignar. Það má því ljóst vera að í Langjökli verður gripið til betri verkfæra.
Eldur þyrfti að vera mjög mikill, líklega koma frá eldvörpu af einhverju tagi, og vatnsþrýstingurinn þyrfti að vera miklu meiri en ég hafði yfir að ráða.
Svo var vandinn sá að koma vatni að staðnum. Við brugðum á það ráð að fá lánaðar stórar bláar tunnur, fylltum þær af vatni og fórum daglega með uppeftir þessa fjóra daga sem við eyddum í verkefnið.
Ísinn var dásamlega fallegur og tær þarna uppi. Hann virtist algjörlega ómengaður af grjóti, sandi, leir eða ösku. Aðeins fallegur og tindrandi og ég sá framtíðina í honum en las því miður ekki smáa letri, þetta með kostnaðinn. Og því fór sem fór.
|
Árni Jóhannsson. |
Þeir hlógu að mér margir Hornfirðingarnir og það var skiljanlegt. Hvernig átti fólk árið 1999 að átta sig á því að veðja ætti á ferðaþjónustu sem atvinnugrein.
Á þessum árum héldu margir að sjávarútvegur og landbúnaður væri framtíðin fyrir Ísland. Hins vegar voru þeir til sem gerðu sér far að kíkja á verkið og hvöttu mig til dáða.
Þeir sem skildu var ljóst að ef hægt væri að búa til íshelli væri kominn staður sem sjálfkrafa gæti dregið að þúsundir ferðamanna og þúsund möguleikar væru með hann. Þar væri hægt að segja frá jöklafræði, bjóða upp á veitingar og gistingu. Og hellirinn hefði engin takmörk.
Hægt væri að útbúa „herbergi“ eða „sali“ eftir þörfum. Rekstur jöklaferða þyrfti ekki að byggjast á stórhættulegum vélsleðaferðum enda vitað mál að það fer ekki öllum að stjórna ökutæki á jafn hættulegum stað og Skálafellsjökull er víða.
Fljótlega hurfu öll ummerki um hellisgerðina, jökullinn græðir sig sjálfur.
|
Þorkell Þorkelsson. |
Ég hef alveg tröllatrú á því sem gera á Langjökli. Vandinn er hins vegar að finna stað sem er tiltölulega kyrr, jökullinn sé þar ekki á mikilli hreyfingu. Það getur valdið mikilli hættu en þó er hætt við að skelfing grípi um sig þegar jökullin hreyfist örlítið, þá heyrast undarleg hljóð.
|
Höfundur og Sigurður Árni Þórðarson.
|