miðvikudagur, 18. desember 2013

Bókin Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls



Fimmvörðuháls er ein vinsælast gönguleið landsins og sú langvinsælasta af þeim sem teljast til dagleiðar, það er meira en þriggja til fimm tíma ganga.

Gera má ráð fyrir að á hverju ári gangi hátt í tuttugu þúsund manns á Fimmvörðuháls og fyrir þessum vinsældum eru gríðarlega margar ástæður.

Bókin um Fimmvörðuháls 

Fyrir tveimur árum skrifaði ég bók um Fimmvörðuháls. Hún er afar mikið breytt endurgerð bókar sem ég skrifað og kom út árið 2002. Síðan hafa auðvitað orðið gríðarlegar breytingar á Hálsinum. Ekki aðeins að þar hefur orðið eldgos og tvö eldfell myndasta í kringum gígana heldur hefur öskufall frá Eyjafjallajökli breytt ásýnd landslags á sunnanverðum Hálsinum talsvert. Hvoru tveggja eru gerð góð skil í bókinni.

Laus kort fylgja 

Góð kort bókinni. Kortin eru laus og því handhæg fyrir göngufólk. Inn á þau hafa gönguleiðirnar verið merktar sem og helstu örnefni. Þar með eru taldir fossarnir sem eru helsta prýði leiðarinnar á sunnanverðum Fimmvörðuhálsi, Skógaheiði. Myndir eru birtar af flestum þeirra sem finnast á fyrri hluta leiðarinnar og þeir bera margir nöfn. Þess má geta að lausu kortin eru einnig birt í bókinni sjálfri.

Nýja gönguleiðin 


Á nýju gönguleiðinni, frá svokölluðu Vaði (yfir Skógaá) og upp á Fimmvörðuhrygg, eru fjölmargir fossar og flúðir sem fæstir hafa augum litið. Allir eru þeir merktir inn á kortin og telst mér til um að þeir séu í allt þrjátíu og sjö. Áhöld geta þó verið um það hvað sé foss og hvað flúð. Engu að síður er Fossaleiðin, sem ég kýs að kalla hana, afar áhugaverð og óskaplega gaman að hafa gengið upp á Hálsinn og barið þá alla augum.

Norðan megin liggur hefðbundin gönguleið norður yfir Morinsheiði og um Kattahryggi og í Bása. Einnig er hægt að fara Hvannárgilið í Bása en það er fáfarin er heillandi gönguleið.

Svona má nú lengi masa um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls. Hún er frábær og viðlíka gönguleið er ekki að finna annars staðar á landinu. Eða hvar annars staðar getur göngumaðurinn t.d. grillað mat efst á eldfjalli með því að nýta þann gríðarlega hita sem látlaust streymir upp úr því?



Ódýr og fróðleg bók 

Bókina er hvergi hægt að fá lengur en hjá útgefanda og þar eru enn nokkur eintök óseld.

Þeir sem áhuga hafa geta pantað bókina á 5vh@simnet.is og hún verður send um hæl. Bókin kostar aðeins 1.990 krónur með vsk.



þriðjudagur, 17. desember 2013

En fjord skal ha et navn som ender på fjord ...



Esja séð frá Reykjavík.
Bláhnúkur við Landmannalaugar.
Þetta fjall þekkja allir enda höfum við Reykvíkingar það fyrir augunum nærri því á hverjum degi. Ekki er þó víst að allir þekki fjallið sem er á hinni myndinni.


Látum það vera enda er hér ekki um neina keppni að ræða. Munurinn á Esju og Bláhnúki við Landmannalaugar er talsverður en einna áhugaverðastur er munurinn á þessum tveimur örnefnum.

Ef ekki væri myndin segði nafnið Esja ekkert til um hvað um sé að ræða. Esja gæti þess vegna verið nafn konu, báts, bókar eða einhvers annars. Hins vegar fer enginn í grafgötur með að hnúkur er hluti fjalls og í þessu tilviki allt fjallið. Þetta beinir athyglinni að örnefnum.

Í bókinni Grímnir 1, riti Örnefnastofnunar um nafnfræði, segir Þórhallur Vilmundarson á bls. 125, en hann er að ræða um Surtshellir sem líkur benda til að hafi einfaldlega heitið Surtur (Surtr) fyrr á öldum:

Breytingin Surtr > Surtshellir er í samræmi við hina ríku tilhneigingu til að bæta stofnlið við einliðað örnefni sem M. Olsen kallar „en tendens som i den historiske tid har gjort sig gjeldende så å si overallt í norsk navneskikk: en fjord skal ha et navn som ender på „fjord“, en elv (en å) et nafn som ender på „elv“ („å“), o.s.v.
Det er trangen til å utheve skarpt den ankelte lokalitet som har fört til dette, og trangen måtte melde sig fordi visse mangler blev merkbare ved den eldre navngivning.
Hvínsfjorðr har avlöst en eldre, usammensatt fjordnavn Hvínir ... Mosse-elven har avlöst Moss (*Mors) ...“ (NK V, 32-33) Sbr hér á landi Reyðr > Reyðarfjall (-Reyðarfjörður), *Trékyllir > - Trékyllisvík (G1) o.s.frv.

Er þetta nú ekki alveg stórundarlegt. Eða hvað myndi lesendum finnast ef þróun örnefna hefði fylgt þessu út í ystu æsar og þá værum við með fyrir augunum Esjufjall, Hengilsfjall eða Henglafell, Keilisfjall, Strútsfjall, Krákufell, Grábrókarfell, Baulufjall og álíka.

Hefði hins vegar þróunin ekki orðið á þennan hátt værum við að ganga á Vífil, Kistu, Helga, Búr, Sel ...

Eða er þetta komið út í öfgar hjá mér. Ef til vill er hér ekki um örnefnaþróun heldur breytingu sem sum örnefni taka vegna einhverra ástæðna sem okkur er ekki kunnar en önnur halda sínu. Engu að síður er þetta áhugaverðar vangaveltur.

laugardagur, 14. desember 2013

Þórhallur Vilmundarson og náttúrunafnakenningin


 

Á árunum laust fyrir og um 1970 setti Þórhallur fram hina umtöluðu náttúrunafnakenningu sína og flutti um hana röð opinberra fyrirlestra í Reykjavík, við einstaklega góða aðsókn, enda fyllti hann þá Háskólabíó í nokkur skipti. Um þessi efni talaði hann einnig víðar um land, t.d. var hann í febrúar 1982 fenginn til að halda örnefnafyrirlestra í fæðingarbæ sínum Ísafirði. Við undirbúning fyrirlestranna hafði Þórhallur ferðast fram og aftur um allt land á jeppa sínum og tekið ógrynni af góðum ljósmyndum sem hann sýndi síðan máli sínu til stuðnings. Kenning hans var tvímælalaust sú djarflegasta og frumlegasta sem forystumaður í íslenskum fræðum kom fram með um langt árabil. Með tilkomu kenningarinnar vaknaði upp nýstárleg og gagnleg umræða um uppruna fjölda örnefna. Jafnvel var nú tekið að draga tilvist einstakra landnámsmanna í efa, og þótti sumum það reyndar mikil goðgá.
Þetta segir Björn Teitsson, fyrrum skólameistari á Ísafirði, í minningargrein í Morgunblaðinu í dag um Þórhall Vilmundarson, prófessor og fyrrum forstöðumann Örnefnastofnunar.

Grímnir 

Grímnir.
Svo vill til að í margar vikur hef ég verið að blaða í nokkrum bókum og þær hafa jafnan legið á borðinu hjá mér. Meðal þetta eru þrjá bækur sem bera nafnið „Grímnir, rit um nafnfræði“. Útgefandi var Örnefnastofnun Íslands og höfundur hins fjölbreytta efnis þeirra er áðurnefndur Þórhallur.  Fyrsta bókin kom út 1980, önnur bókin 1983 og sú síðasta 1996.

Þórhall þekkti ég ekkert. Hafði þó einu sinni eða tvisvar hitt hann að máli meðan ég gaf út tímaritið Áfangar. Ástæðan var einfaldlega sú að ég hafði keypt Grímni einhvern tímann 1982 og við það vaknaði áhugi minn á svokallaðri „náttúrunafnakenningu“ Þórhalls sem Björn Teitsson nefnir hér fyrir ofan.

Skortur á örnefnum 

Við lestur bókarinnar og raunar hinna tveggja sem á eftir komu vaknaði og treystist áhugi minn fyrir örnefnum. Snemma komst ég að þeirri staðreynd að örnefni á Íslandi eru fá og mörg hver eru hin sömu víða um landi. Þetta er einstaklega bagalegt fyrir ferðamenn enda ótækt að fjall beri einungis tölur sem er hæsti tindur þess. Þetta er engu að síður staðreynd. Niðurstaðan varð einfaldlega sú að örnefni eru ekki endanlegur sannleikur og ekki megi bæta við eins og svo margir halda.


Goðahraun á Fimmvörðuhálsi, eldfjallið Magni lengst til vinstri. Forn gígur hægra megin í forgrunni. Fyrir eldsumbrotin á Hálsinum 2010 lá gönguleiðin með honum, stundum var gengið á hann.
Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt,“ sagði Tómas skáld Guðmundsson í ljóði sínu Fjallgangan. Honum rataðist satt á munn. Þess vegna var ákveðið að gefa eldstöðvunum og hrauninu á Fimmvörðuhálsi nafn. Stóri gígurinn var nefndur Magni, sá minni Móði og hraunið Goðahraun enda heitir landið fyrir neðan Goðaland.

Skarpskyggni 

Í bókunum þremur fjallar Þórhallur Vilmundarson um fjölda örnefna. Rekur uppruna orða, ber þau saman við hliðstæð í öðrum tungumálum, skoðar staðhætti, ber þá saman við sambærilega staðhætti á Norðurlöndum og kemst svo að niðurstöðu. Þarna fór saman mikil menntun, þekking, skarpskyggni og fjölhæfni í einum og sama huga.

Góðaland 

Af því að ég nefndi Goðaland hér á undan er ekki úr vegi að greina frá því sem Þórhallur segir um örnefnið:

Frá Goðalandi. Myndin er tekin með miklum aðdrætti skammt frá Básum og horft til inn eftir dalnum, til austurs. .
Líklega hét G. upphaflega *Góðaland vegna góðra beitarskilyrða. Til samanburðar er Góðaland, suðurendi Vífilsstaðahlíðar, Gull., Godlendet í Stangehéraði á Heiðmörk (NGIII 167), Goathland (Godelandia um 1110) í Jórvíkurskíri (DEPN4, 199) o.s.frv. >Goðdalur, -ir. 

Emstrur 

Emstrur er skrýtið örnefni en það á í dag einkum við um landsvæði norðvestan við Mýrdalsjökul en gæti áður hafa náð talsvert sunnar, jafnvel allt að Ljósá sem telst nú til Almenninga. Þórhallur ræðir nokkuð ítarlega um örnefnið og þar er margur fróðleikurinn. Hér er hluti af umfjöllunin, lítilsháttar lagað til á mína ábyrgð (einnig vantar nokkur tákn sem finnast ekki á lyklaborðinu mínu):
Innri Emstruá, illfært skaðræðisfljót fór ekki mildilega með bílinn sem þarna sést. Brúin sést efst til hægri.
Nokkrar umræður hafa orðið um örnefnið Emstrur meðal fræðimanna. Á víkingaráðstefnu í Leirvík á Hjaltlandi 1950 fjallaði A.B. Taylor meðal annars um örnefnið Unst, sen svo heitir nú hin nyrsta Hjaltlandseyja, sem nefnd er Aumstr, Aurmtr, Qrmst í fornum heimildum.
Í umræðum á ráðstefnunni benti Jón Helgason á, að om- kynni að vera u- hljóðvarpsmynd rótarinnar am-, en hún kæmi fyrir í norrænum örnefnum og merkti 'erfiðleikar', t.d. Amager, Qmð í N-NOregi (nú Andöya). [...]
S. Bugge taldi eyjarheitið Qmð dregið af so. ama „gnide, skubbe“ og merkti þá 'eyja, sem núin er af hafi og vindum', en G. Knudsen hugði Amager hafa heitið í öndverðu *Amhakæ, þ.e. 'haki (oddi, sem veldur ama'.  
J. Kousgaard Sorensen telur, að fyrri liður Amager sé Ame, heiti sundsins milli Sjálands og Amakurs, af *am- nudda', nafnið þá leitt af því, að bátarhafi kennt gruns , er þeir sigldu um sundið, og kunni sama vatnsrásarnafn (vanddragsnavn) að vera í hinum þekktu örnefnum Amsterdam, Emden og Ems. [...]
Stórkonufell er sunnarlega á Emstrun, sunnan við Innri-Emstruá. Þarna liggur gönguleiðin milli
Landmannalauga og Þórsmerkur sem oftast er nefnd Laugavegurinn.
Í grein um viðskeytið -str- í germönskum örnefnum segir Th. Andersson hins vegarm að Emstrur á Íslandi sé eflaust ekki örnefni sem myndað sé sem slíkt með -str- viðskeyti, enda séu slík -str- örnefni ekki til á Íslandi.
Nafnið Emstrur mun dregið af so amstra 'þrælka; kveinka sér', no. amstur 'ómak; erfiði' sjá (Blöndal).
Sveinn Pálsson segir 1793, að Emstrur séu „formedelst Jökelelve nu om Stunder næsten ubefarlig ...“ 
Í sóknarlýsingu 1839 segir um Emstrur: „Verða þær lítt notaðar vegna ófærra vatna.“
Líklegt er því, að nafnið sé dregið af þessum erfiðleikum.
Fyrir leikmann er fengur að fá að lesa svona rökstuddan fróðleik. Það er nú alltaf einu sinni þannig að þegar maður hefur náð að kynna sér fræði sem falla vel að huga manns og ekki síður áhugamálum þykist maður hafa himinn höndum tekið, svo upplýsandi er þetta allt saman.

Ég trúi því að bæði leikmenn og fræðimenn framtíðarinnar eiga eftir að minnst Þórhalls Vilmundarsonar með virðingu og hlýju.

föstudagur, 13. desember 2013

Þegar við reyndum að gera íshelli í Skálafellsjökli



Fyrir um fimmtán árum reyndi ég að búa til íshelli í Skálafellsjökli en árangurinn var ekki mikill. Tilgangurinn var auðvitað sá að búa til ferðamannastað, viðkomu- og fróðleiksstað fyrir ferðamenn. Á þessum árum var ég framkvæmdastjóri Jöklaferða, fyrirtækis sem sá um vélsleða- og snjóbílaferðir um Vatnajökul og veitinga- og gistiaðstöðu auk ferðaskipulagninga í Austur-Skaftafellssýslu.

Komnir um fjóra til fimm metra inn í jökulinn.
Við völdum okkur stað ofarlega í Skálafellsjökli þar sem jökullinn var ekki á mikilli hreyfingu. Á þessum tíma var alltaf mikil ákoma á jökulinn um veturinn og hún entist fram á haust. Þess vegna þurftum við að moka djúpa gryfju til að komast að ísnum.

Þegar þangað var komið notuðum við loftpressu til að sprauta vatni á ísinn og brjóta hann þannig. Þetta tókst og ísinn brotnaði smám saman og við náðum að komast inn í ísinn. Mest held ég að við höfum farið um það bil þrjá til fjóra metra inn í jökulinn.
Tryggvi Agnarsson.

Þetta var svo gríðarleg mikil vinna. Ég hafði enga peninga í þetta og ákvað í upphafi að þetta yrði tilraunaverkefni og fékk vini og kunningja til að hjálpa til.

Þarna komu að málum Sigurður Árni Þórðarson, prestur, Tryggvi Agnarsson, lögmaður, Árni Jóhannsson, viðskiptafræðingur, Þorkell Þorkellsson, ljósmyndari, Sigurður Ólafsson, húsasmiður, Ögmundur Guðnason á Höfn og fleiri og fleiri. Allt hörkukallar og duglegir til vinnu. Margir þeirra áttu það sameiginlegt að trúa á verkefnið og höfðu oftast verið svo vitlausir að leyfa mér að teyma þá í alls kyns vitleysur

Við upphaf framkvæmda.
Ég hafði áður mikið rætt við Fjölni Torfason á Hala um svona helli en hann og Þorgerður Arnórsdóttir, kona hans voru og eru stórmerkir frumkvöðlar. Það voru þau sem byrjuðu með bátsferðir á Breiðamerkurlóni, hófu síðar silungseldi á Hala og stofnuðu loks Þorbergssetur.

Þér dugar ein eldspýta, sagði Fjölnir og glotti. Ég vissi auðvitað ekki hvort hann var að gera at í mér eða væri fúlasta alvara. En hann hafði fræðilega rétt fyrir sér. Hitinn af logandi eldspýtu dugar til að bræða ísinn, að minnsta kosti lítilsháttar. Og svo leiddi hvað að öðru og loks var hann búinn að sannfæra mig um að ísinn myndi láta undan, hvaða aðferð sem ég beitti. Andaðu bara á hann, sagði Fjölnir og hló.

Við upphaf framkvæmda.
Auðvitað reyndist þetta rangt hjá Fjölni. Ísinn er rosalega harður. Hann er mörg hundruð ára gamall og hefur myndast undir þrýstingi, mikið farg hvíldi á honum og þess vegna þarf meira en eldspýtu eða vatnsþrýstigræjur.

Já, hann var alveg déskoti harður og illur viðureignar. Það má því ljóst vera að í Langjökli verður gripið til betri verkfæra.

Eldur þyrfti að vera mjög mikill, líklega koma frá eldvörpu af einhverju tagi, og vatnsþrýstingurinn þyrfti að vera miklu meiri en ég hafði yfir að ráða.

Svo var vandinn sá að koma vatni að staðnum. Við brugðum á það ráð að fá lánaðar stórar bláar tunnur, fylltum þær af vatni og fórum daglega með uppeftir þessa fjóra daga sem við eyddum í verkefnið.

Ísinn var dásamlega fallegur og tær þarna uppi. Hann virtist algjörlega ómengaður af grjóti, sandi, leir eða ösku. Aðeins fallegur og tindrandi og ég sá framtíðina í honum en las því miður ekki smáa letri, þetta með kostnaðinn. Og því fór sem fór.

Árni Jóhannsson.
Þeir hlógu að mér margir Hornfirðingarnir og það var skiljanlegt. Hvernig átti fólk árið 1999 að átta sig á því að veðja ætti á ferðaþjónustu sem atvinnugrein.

Á þessum árum héldu margir að sjávarútvegur og landbúnaður væri framtíðin fyrir Ísland. Hins vegar voru þeir til sem gerðu sér far að kíkja á verkið og hvöttu mig til dáða.

Þeir sem skildu var ljóst að ef hægt væri að búa til íshelli væri kominn staður sem sjálfkrafa gæti dregið að þúsundir ferðamanna og þúsund möguleikar væru með hann. Þar væri hægt að segja frá jöklafræði, bjóða upp á veitingar og gistingu. Og hellirinn hefði engin takmörk.

Hægt væri að útbúa „herbergi“ eða „sali“ eftir þörfum. Rekstur jöklaferða þyrfti ekki að byggjast á stórhættulegum vélsleðaferðum enda vitað mál að það fer ekki öllum að stjórna ökutæki á jafn hættulegum stað og Skálafellsjökull er víða.


Fljótlega hurfu öll ummerki um hellisgerðina, jökullinn græðir sig sjálfur.

Þorkell Þorkelsson.
Ég hef alveg tröllatrú á því sem gera á Langjökli. Vandinn er hins vegar að finna stað sem er tiltölulega kyrr, jökullinn sé þar ekki á mikilli hreyfingu. Það getur valdið mikilli hættu en þó er hætt við að skelfing grípi um sig þegar jökullin hreyfist örlítið, þá heyrast undarleg hljóð.
Höfundur og Sigurður Árni Þórðarson.

mánudagur, 25. nóvember 2013

Hel og víti eru nánast úti um allt land ...






Ferðu til helv…“, getur stundum hrokkið út úr þeim er við annan deilir. Það er ekki fallega sagt. Engu að síður er leiðin þangað sögð bein og greið, en á móti kemur að þar mun vistin flestum vera ill nema innrætið sé þeim mun verra.

Hvaðan kemur svo þetta „hel“ eða „víti“ sem hefð er fyrir að tvinna saman í eitt orð og lengi vel var haft yfir það hræðilegasta sem sannkristinn maður gat hugsað sér.

Grundarfjörður og fyrir ofan eru Kerlingatindar fjallaveggurinn sem liggur 
frá miðri mynd og til vinstri eru Helgrindur.

Undirheimar 

 Jú, hún hét Hel sem áður réði fyrir þeim vonda dvalarstað er kallaðir voru undirheimar. Stundum voru þeir kallað Hel, hugsanlega eftir forstöðukonunni. Eftir því sem segir í fornri goðafræði var hún að hálfu blá og víst ekki geðug frekar en sá sem síðar er sagður hafa tekið þar við búforráðum. Þá var líka nafni staðarins breytt í Helvíti af því að straffið þurfti að koma vel fram í nafninu, kristnum til varnaðar.


Hjá Hel voru þeir sagðir vistast sem ekki dóu í bardaga. Hinir fóru til Valhallar og áttu þar eilífa sæluvist meðal Einherja í margvíslegri karlmannlegri skemmtan, svo sem bardaga, drykkju, áti öðru annað álíka.

Hælavíkurbjarg er mikilfenglegt en þarna, utarlega, er skriða sem nefnd er
Heljarurð, hún er nr. 10 á kortinu.
Í Hel var vistin slæm og forstöðukonan tók starf sitt alvarlega. Hjá henni var salur einn mikill er nefndar var „Eljúðnir“. Hún snæddi af disk sem kallaðist „Hungur“ og hnífur hennar nefnist „Sultur“.  Henni til þjónustu var ambáttin „Ganglöt“ og þrællinn „Ganglati“. Rúm hennar kallast „Kör“ og vill enginn leggjast í það, jafnvel enn þann dag í dag og enn síður ef rúmnauturinn heitir Hel.

Af þessu má ráða að ekkert jákvætt var við Hel og því ekki furða þótt nafnið festist á þá staði sem þóttu með afbrigðum slæmir
Hér er útsýni yfir eyjar á Breiðafirði. Í vinstra megin í fjarska sér í 
Dímonarklakka, sem margir kannast við.  Ég held að Heljarmýri 
sé landið sem er næst sjónum á þessari mynd, nr. 7 á kortinu.
umferðar. Þeir finnast um allt land. Sumir virðast afar meinlausir en aðrir hrópa nánast á vegfarendur að halda sig fjarri. Þetta gætu verið staðir eins og Heljardalsheiði, Heljarfjall eða Heljarfjöll, Heljargnípa eða jafnvel Helkunduheiði.

Á heljarslóðum þótti hættulegt að fara. Þokan villti mönnum sýn, veður voru einatt vond og vofur og óvættir gátu sprottið upp úr landinu og þeir þrifust á illvirkjum enda áttu þeir ættir að rekja til heljar …

30 Hel og vítis staðir

 Áður en lengra er haldið er hér listi yfir þá staði á landinu sem bera nafnið „Hel“ sem forlið og til að yfirlitið verði enn meira er getið um örfáa staði sem bera nafnið „Víti“, eitt sér eða með öðru.

Listinn er ábyggilega ekki tæmandi og varla eru allir staðir sem standa undir nafninu en munum að þetta er aðeins gert til skemmtunar.

  1. Heljarkinn, hólar suðaustan við Viðeyjarstofu
  2. Heljarkinn sunnan í Þúfufjalli við norðanverðan Hvalfjörð
  3. Helgrindur, nes sunnan við Akra á Mýrum
  4. Heljarkinn, hlíðin norðvestan í Stapafell, suðaustan við Snæfellsjökul
  5. Helgrindur,  fjöllin ofan við Grundarfjörð að suðvestan
  6. Heljarmýri, landspilda á Þórsnesi, sunnan Stykkishólms, við Nesvog
  7. Heljarmýri, á Skógarströnd, norðan Straumsfjalls, ekki langt frá Álftafirði og Stykkishólmi
  8. Heljargil, í Skorarhlíðum sem eru austan Rauðasands
  9. Heljarurð, fremst á Þernuvíkurhálsi við Ísafjarðardjúp
  10. Heljarurð, norðaustan í Hælavíkurkambi
  11. Heljarsíki, í Víðidal við Víðidalsá, skammt norðaustan við Víðigerði
  12. Heljarsíki, sunnan við Hóp, austan við ósa Víðidalsár.
  13. Heljardalshnjúkur, 660 m og Heljardalur eru skammt norðan Vatnsskarðs í Austur-Húnavatnssýslu
  14. Heljardalsheiði er á milli Svarfaðardals og Heljardals, skammt norðan við Hóla í Hjaltadal. Við heiðina eru fjölmörg önnur heljar-nöfn: Heljarskál, Heljarfjall, Heljará og Heljarbrekkur.
  15. Heljarskál í norðvestanverðu Landafjalla við Öxnadal
  16. Víti er nafn á gíg við Kröflu og þar við er Vítismót
  17. Litlavíti og Stóravíti eru nöfn á gígum sunnan Þeystareykjabungu.
  18. Helkunduheiði er á milli Finnafjarðar og Þistilfjarðar, sunnar en Brekknaheiði
  19. Heljardalsfjöll eru austnorðaustan við Mývatn. Þar er Heljardalur, Heljardalsá, og Heljardalseyrar
  20. Heljardalsfjall og Heljardalur eru rétt við þar sem gamli þjóðvegurinn lá yfir Möðrudalsfjallgarð.
  21. Víti er stór sprengigígur í Öskju.
  22. Heljará er við norðanverða Fáskrúðsfjörð og rennur í hann ofan úr Kerlingarfjalli.
  23. Víti og Vítisbrekkur eru innst inni í Laxárdal í Hornafirði, norðan við Höfn.
  24. Heljargnípa er sker í Öræfajökli, norðvestan við Breiðamerkurfjall.
  25. Heljarkambsgljúfur er við Skaftá, norðaustan í Granahaugi í Skaftártungu
  26. Heljargjá er löng sprunga sem gengur í gengum Gjáfjöll en þau eru vestan við Tungnárjökul og Jökulheima. Þar er einnig að finna örnefnið Helgrindur.
  27. Heljarkambur er á milli Fimmvörðuháls og Morinsheiðar.
  28. Heljarkinn er fjall norðvestan við Þjórsárdal, vestan við Fossárdal
  29. Heljarkinn er suðaustan í Kotsfjalli, ekki langt austan við Geysi í Haukadal.
  30. Heljarbrú er í Básagili, suðvestan við Bjarnafell sem er skammt frá Geysi í Haukadal
Ekki er um auðugan garð að gresja í þessu öllu. Heljarkinnarnar eru fjórar, tvær eru Helgrindur og einnig eru tvær Heljarmýrar, einnig síkin, urðirnar og svo eru Vítin þrjú og til viðbótar eitt af hvoru, Stóra- og Litlavíti.

Heljarkambur, norðan við Fimmvörðuháls.
Sjá nr. 27 á kortinu.

Heljarkambur 

Flestir þekkja Heljarkamb. Hann  þótti forðum daga mikill og hræðilegur farartálmi á leiðinni yfir Fimmvörðuháls. Í bók Þórðar Tómassonar um Þórsmörk segir að fé hafi verið rekið yfir Hálsinn. Eftirsóknarvert var að komast með sauðfé í hið góða Goðalandi þar sem hagar voru miklir og smjör draup af hverju strái. Til mikils var að vinna að geta alið fé á slíkum slóðum og fá það heim feitt og sællegt. Fimmvörðuháls og Heljarkambur voru hættulegir farartálmar og enginn leikur að fara þar um og sögur eru um hrakninga fjárrekstrarmanna. Þannig er það enn í dag. Á Hálsinum er enn allra veðra von og illt að villast þar. Og enn í dag hræðast margir Heljarkamb.

Nafnið eitt ber með sér hættu á hræðilegum afdrifum ef eitthvað bregður út af. Sitjandi í örygginu heima í stofu veltir maður því fyrir sér hvort fleiri örnefni á landinu beri með sér svo óttablandið nafn eins og Hel, forlið vítis.

Hrollkaldir staðir

Hugsanlega stendur mönnum enginn ótti af Heljarmýri, Heljarkinn eða Heljará. En svona nöfn kom ekki fyrir misskilning, það eitt er víst.

Heljardalsheiði þekkja margir en hún er á Tröllaskaga, liggur á milli Svarfaðardals og Heljardals, sem er innan af Kolbeinsdal, ekki langt frá Hólum í Hjaltadal. Þó heiðin nái upp í 865 m hæð var hún forðum daga fjölfarin en þar gerðust slys, fólk varð úti og týndist.

Heljardalsfjöll eru upp frá Þistilfirði, raunar afar fjarri allri byggð og vegum. Þar eru sögur um að fólk hafi búið meðal annars meðan svartidauði geisaði.

Helkunduheiði er inn af Lónafirði sem er innst í Þistilfirði og Bakkafirði þar fyrir sunnan. Þetta er blaut heiði og þokusæl en ekki veit ég hvaðan nafnið kemur. Það ber hins vegar með sér ógn.

Heljargjá er vestan Vatnajökuls, ekki langt frá Jökulheimum og sporði Tungnárjökuls. Þar er eyðilegt um að litast og land allt mótað af eldsumbrotum, landið sprungið og hrikalegt. Heljargjá er talin hluti af eldstöðvarkerfi Bárðarbungu og hugsanlegt er talið að þar hafi hraun átt upptök sín sem rann allt til sjávar milli Ölfusár og Þjórsár. Gjáin er talin vera um þrjátíu km löng, þó ekki djúp, yfirleitt um tíu metrar en getur þó verið um eitthundrað metrar.

Ofangreindir staðir eru áhugaverði þó ekki sé annars en vegna nafnsins. Tímarnir hafa þó breyst og það sem áður fyrr vakti ótta vegna umhverfis og aldarháttar er allt annað í dag. Hins vegar er þarf að umgangast landið með varúð. Veður geta breyst snögglega til hins verra og því er betra að vera vel undirbúinn fyrir útvist.

Gaman væri nú ef einhver gæti bætt fróðleik í pistilinn. Því myndi ég fagna.


föstudagur, 15. nóvember 2013

Hvers vegna bera 39 fjöll nafnið Búrfell og hvaðan er nafnið komið?




Búrfell landsins merkt inn á kort frá Landmælinum Íslands.
Búrfell landsins eru mörg og finnast um allt land. Að auki eru fjölmörg örnefni dregin af því, nefna má ár, dali, flóa, drög, heiðar, hraun, hyrnur, hálsa og margt fleira. Einnig bera níu bæir nafnið.

Áður en lengra er haldið er hér listinn yfir Búrfell landsins. Mér telst svo til að þrjátíu og níu fell, fjöll, hálsar eða álíka beri nafnið Búrfell:

  1. Búrfell við Hafravatn í Mosfellsbæ, 81 m
  2. Búrfell í Heiðmörk, Garðabæ, 179 m
  3. Búrfell, norðvestan Þingvalla, 782 m
  4. Búrfell í Reykholtsdal við Rauðsgil, 398 m
  5. Búrfell vestan við Síðufjall í Borgarfirði, 156 m
  6. Búrfell í Norðurárdal, sunnan Snjófjalla, ca. 260 m
  7. Búrfell, sunnan við Rif og Hellissand, 232 m
  8. Búrfell við Svínadal í Dölum, norðan í Miðfjalli, ca. 560 m
  9. Búrfell innst í Gilsfirði, 262 m
  10. Stóra-Búrfell, norðan Bjarkalundar, í Vaðalfjöllum, 448 m
  11. Litla-Búrfell, norðan Bjarkalundar, í Vaðalfjöllum, ca. 360 m
  12. Búrfell norðvestan við Brjánslæk í Vatnsfirði, 514 m
  13. Búrfell innst í Patreksfirði (Ósafirði), við Botnsheiði, 412 m
  14. Búrfell innst í Patreksfirði (Ósafirði), við Botnsheiði, ca. 320 m
  15. Búrfell við Selárdal í Arnarfirði, 455 m
  16. Búrfell innst í Dýrafirði sunnanverðum, 505 m
  17. Búrfell skammt frá Ísafirði, það er á milli Súgandafjarðar og Skutulsfjarðar, 741 m
  18. Búrfell, milli Hesteyrar og Miðvíkur í Aðalvík, 498 m
  19. Búrfell upp af Gervidal við Ísafjörð, 601 m
  20. Búrfell ofan Reykjafjarðar á Ströndum, 697 m
  21. Búrfell á austanverðum Hrútafjarðarhálsi, 204 m
  22. Búrfell á Sólheimahálsi við Langadal, skammt frá Blönduósi, 282 m
  23. Búrfell á Skaga, norðan Sauðárkróks, 158 m
  24. Búrfell syðst í Svartárdal í Skagafirði, ca. 620 m
  25. Búrfell í Fjörðum, vestan megin í Hólsdal innan við Þorgeirsfjörð ca. 120 m
  26. Búrfell austan við Húsavík, 761 m
  27. Búrfell suðaustan við Öxarfjörð og suðvestan við Þistilfjörð, 605 m
  28. Búrfell austan við Mývatn, við Mývatnsöræfi, 953 m
  29. Búrfell á Hauksstaðaheiði, sunnan Jökulsárhlíðar, 369 m
  30. Búrfell milli Borgarfjarðar eystri og Brúnavíkur, 451 m
  31. Búrfell austan við Þríhyrningsfjallgarð, norðvestan Jökuldals, 631 m
  32. Búrfell, austan við Kárahnjúka, 840 m
  33. Búrfell við norðanverðan Reyðarfjörð, við veginn yfir í Vaðlavík, 393 m
  34. Búrfell í Skaftártungu, vestan Eldvatns, ca. 220 m
  35. Búrfell í Mýrdal, 393 m
  36. Búrfell við Þjórsárdal, 655 m
  37. Búrfell austan við Hvítá, suðaustan Bláfells, 499 m
  38. Búrfell í Grímsnesi, suðaustan við Úlfljótsvatn og Þingvallavatn, 536 m
  39. Búrfell norðvestan við Þorlákshöfn, 200 m

 Verkefnið

Búrfell austan Mývatns, sjá nr. 28.
Að einhverju leiti getur verið að útlit fjalla með nafninu „Búrfell“ ráði því að þau fengu nafnið. Ekki veit ég orðið „búr“ merkir upphaflega, ef til vill er það hið sama og nú til dags sem er matargeymsla.

Mér finnst frekar óljóst er af hverju nafn fjallanna er dregið og þess vegna fór ég í dálitla heimildavinnu. Hún dróst dálítið á langinn, endaði í vikuvinnu.

Leiddi nú hvað af öðru. Ég glataði tvisvar sinnum því sem ég hafði skrifað. Þá þurfti ég að byrja aftur og þó ég hafi bölvað missinum er ég nú þeirri skoðunar að ritgerðin hafi batnað eftir því sem ég skrifaði hana oftar. Ég vara þó lesandann við, ég er enginn sérfræðingur heldur leikmaður sem hef ánægju af svona vangaveltum.

Hvaða búr er um að ræða?

Búrfell við Þjórsárdal og Hekla með snjóskellum.
Á Vísindavef Háskóla Íslands segir:
Forliður nafnsins Búrfell er líklega dreginn af hinum fornu útibúrum, sem stóðu ein sér og í voru geymd matvæli, dýrir munir og svo framvegis. Þau gátu staðið nokkuð frá jörð svo að skepnur kæmust ekki í þau.
Búrfell standa oft stök og skera sig úr að lögun, og minna sum þeirra á hús. 
Þetta skýrir ekki málið neitt sérstaklega vel og verður að teljast frekar ófullnægjandi skýring.

Á hinum ágæta vef ferlir.is er fjallað um gíginn Búrfell í Heiðmörk og vitnað í vef Örnefnastofnunar um nafnið. Örnefnastofnun er nú ekki lengur til sem slík heldur var gerð að deild innan Árnastofnunar og vefurinn ekki lengur finnanlegur. En á Ferli segir eftirfarandi (greinaskil og feitletranir eru mínar):
En hvers vegna ætli fjöll heiti Búrfell? Það fyrsta sem kemur væntanlega upp í hugann er búrhvalur því ef litið er á mynd af slíku dýri þá eru ákveðin líkindi með útliti hvalsins og sumum Búrfellum einkum þeim sem eru stapar. 
Þar sem fjöllin þykja oft lík að lögun hefur stundum verið talað um Búrfellslag eða Búrfellslögun fjalla. 
Það er til önnur skýring á nafninu og hún er sú að það tengist matargeymslu og þá helst stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr.“ 
Sum Búrfellin eru kölluð Matarfell af sjó svo sem Búrfell á Snæfellsnesi og Búrfell í Reykjarfirði á Ströndum en Búrfell á Gnúpverjaafrétti er kallað „fjallið fyrir innan Heklu“ og Búrfell á Tjörnesi er kallað Kistufell. Ástæða þess er sú að sjómenn trúðu því að ef þeir nefndu Búrfell á nafn gætu þeir egnt á sig búrhvalinn. Þetta voru því svokölluð varúðarnöfn. Talið er að það séu a.m.k. 47 fjöll hér á landi sem bera nafnið Búrfell.
Þetta er nú aðeins bitastæðara og nothæfara. Á Vísindavefnum er getið um „hin fornu útibúr“. Líklega hafa þau verið geymslur, byggðar til að geyma matvöru og hugsanlega byggð þannig að vindur blási um þau eins og hjallar þar sem fiskur er þurrkaður.

Búr og kjölur

Búrfell og Borgarfjörður eystri.
Voru „búr“ kölluð svo eftir fjöllunum eða fengu fjöllin nafnið af útibúrunum? Þetta er ansi góð spurning, þó ég segi sjálfur frá og eftir svarinu fór ég að leita.

Gæti verið að orðið „búr“ hafi haft aðra merkingu en í dag, jafnvel að það hafi verið einskonar útlitslegt orð, ef ég má orða það þannig? Um leið kemur orðið „kjölur“ upp í hugann. Það var áður haft um ásinn, tréstykkið, sem liggur frá stefni trébáts og aftur í skut. Síðar hefur orðið færst yfir á allan þann hluta bátsins eða skips sem er í sjó enda víst að kjölur, líkur þeim sem hér hefur verið lýst, er ekki til á stálskipum.

Gæti verið að „kjölur“ og „búr“ séu andheiti? Hið fyrrnefnda gæti átt við kjalarásinn en hið síðara um það sem snéri inn í bátinn … Jafnvel gæti „búr“ verið einhvers konar mænir á húsi, það sem hæst ber.

Orðsifjafræðin

Hvers vegna er hvalur kenndur við „búr“? Er það vegna þess að hvalurinn var notaður í fæðu eða var það vegna útlitsins? Líklega er ágætt að verja dálitlum tíma í að kanna þetta.

Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar segir:
Búrhvalur.
Búrhvalur k., búrhveli h., búri k. ´sérstök tannhvalategund (physeter macrocephalus)´; sbr. nno. [miðnorska] burkval um óvissa hvalatengund. Uppruni óljós. Oftast talið leitt af búr og sé þá átt við lýsisforðann í höfði hvalsins. Vafasamt. Orðið gæti eins verið sk. fi [fornindverska]. bhuri- ´stór´, sbr. býri eða nno. bura ´öskra, baula’, sbr. söguna um nauthvelið og baul þess, og nno. [miðnorska] buril, burul ´nautkálfur, uxi´. Sjá burung(u)r.
Búrfell á Sólheimahálsi í Austur-Húnavatnssýslu.
Því miður hef ég ekki allar málfræðilegar leturgerðir sem ríkt er af í tilvitnunni, biðst velvirðingar á því. Vona einnig að hornklofarnir rugli ekki, þótti við hæfi að skýra út skammstafanir.

Þó tilvitnanir í Orðsifjabókina sé eflaust dálítið flóknar finnst mér engin goðgá að álykta af þessu að orðið „búr“ merki eitthvað stórt. Sögnin að öskra yfirgnæfir tal eins og alkunna er og naut er stórt dýr svl dæmi séu tekin úr orðsifjabókinni.

Í sömu bók segir:

1 Buri eða Búri k. goðsögul. Nafn á föður Bors eða Burs, föður Óðins. Uppruni óviss. Oftast lesið Buri og þá talið merkja þann sem eignast afkvæmi eða son, sbr. bur. Aðrir ætla að orðið sé sk. fi. [fornindverska] bhuri- ´stór´eða mno. [miðnorska] bura ´öskra´, sbr. að Buri eða Búri var risaættar, af Ými kominn. Ath. búrhvalur.

Þarna fannst mér ég vera kominn í feitt þangað til ég rakst á eftirfarandi:
2. Buri eða Búri k. dvergsheiti. E.t.v. sk. búri (1).
Komum síðar að nöfnum sem tengjast Búra. Af þessu má draga þá ályktun að „búri“ geti þýtt hvort tveggja, stórt og lítið, sbr. risa eða dverg. Það kann þó að vera misskilningur.

Loks er ástæða til að tiltaka þriðju tilvitnunina í Orðsifjabókina. Hún er svona:
1. búri k. ´ruddi, dóni, durgur; aðsjáll maður, nirfill; íbúi (verslunar)borgar´. To. [tökuorð] úr mlþ. [nýlágþýsku] bure ´bóndi´, sk. [skylt] búr og búa (3).
Er eitthvað hér sem hönd á festir? Hugsanlega má telja að „búr“ sé eitthvað stórt eða það merki hús eða matargeymslu. Engin af ofangreindum tilvitnunum tekur til útlits, ekkert skýrir almennilega „búrfellslagið“.

Ég leyfi mér þó að draga þá ályktun aftur að „búr“ merki eitthvað sem er stórt. Hins vegar verður að hafa það í huga að Búrfell landsins eru afar mismunandi í útliti og stærð og jarðfræðilega eru þau ekki eins.

Fornritin

Sæl væri eg
ef sjá mættag
Búrfell og Bala,
báða Lóndranga,
Aðalþegnshóla
og Öndvertnes,
Heiðarkollu
og Hreggnasa,
Dritvík og möl
fyrir dyrum fóstra.
Þetta fallega kvæði er úr Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga Bárðardóttir orti það er hún kom til Grænlands eftir að hafa hrakist þangað frá Íslandi. Hún var komin með heimþrá og saknaði heimahaganna. Í sögunni segir: „Þessi örnefni öll eru á Snjófellsnesi“.

Af þessu má draga þá álykta að snemma eftir landnám hafi örnefni myndast og þar með fékk fjall á Snæfellsnesi nafnið „Búrfell“ (sjá merkingu nr. 7 á kortinu). Í þessu sambandi má geta þess að Grímur Rögnvaldsson sá sem nam Grímsnes bjó að Búrfelli (sjá merkingu nr. 38 á kortinu). Líklega var bærinn samnefndur fjallinu fyrir ofan.

Þetta var mér hvatning til að fletta í gegnum önnur fornrit þó svo að ég minnist þess ekki að hafa séð orðið „búr“ í þeim. Enda varla von, flestir leikmenn lesa vegna söguþráðarins og smáatriðin hverfa.

Ég fór því í gegnum Fornaldarsögur Norðurlanda, Gylfaginningu, Heimskringlu, Íslendingasögur, Landnámubók og Jómsvíkingasögu. Leitaði að öllu því sem tengst gæti búri, Búrfelli eða fólki sem ber nafnið Búri. Margt merkilegt fannst í þessum ritum.

Líklega er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að málið hefur breyst talsvert frá því að fornsögurnar voru ritaðar. Ekki er víst að ég átti mig á öllum blæbrigðum sem málfræðingar og fornritaspekingar koma glöggt auga á. Væntanlega fæ ég sendar leiðréttingar sem ég reyni þá jafnóðum að koma inn í þessa samantekt.

Við skulum líka hafa hugfast að matur er viðkvæmur og það hafa fornmenn án efa vitað. Þar af leiðir að þeir leituðu ýmissa ráða til að geyma hann sem lengst. Án efa vissu þeir að kæling hjálpar til. Því gátu búr verið stök hús, staðsett annað hvort þar sem um gustaði um eða að þau voru grafin í jörð.

Að öðru leyti er gott ráð að nota hugarflugið þegar eftirfarandi tilvitnanir í fornritin eru skoðaðar.

Laxdæla

Þar eru nefnd „búr“ ótal sinnum sem og „útibúr“. Í kafla 55 segir:
Síðan riðu þeir að selinu. Selin voru tvö, svefnsel og búr.
Hér er greinilega átt við að húsin hafi verið tvö, bæði nefnd sel. Annað hafi verið íverustaður en hitt matargeymsla. Búrið er ekki hluti af öðru hús, t.d. herbergi, heldur sérstakt hús.

Njáls saga

Í Njálssögu er víða talað um „búr“ og „útibúr“. Í sögunni gerist afdrifaríki atburður er þræll Hallgerðar fer að skipun hennar og stelur mat í Kirkjubæ:
Síðan fór hann til útibúrs og lauk upp og klyfjaði þaðan tvo hesta af mat en brenndi búrið og drap hundinn. Hann fer upp með Rangá. Þá slitnar skóþvengur hans og tekur hann hnífinn og gerir að. Honum liggur eftir hnífurinn og beltið.
Í 109. kafla segir af Höskuldi Hvítanesgoða sem tók á móti Njálssonum, fóstbræðrum sínum:
Hann hafði látið taka ofan skála sinn en hann átti útibúr þrjú og voru þau búin mönnum að sofa í.
Líklega má gera ráð fyrir að matargeymslur Höskuldar hafi verið allstórar og góðar fyrst þeim var hægt að breyta í gististaði. Þetta notaði Mörður til að sá fræjum tortryggni hjá Skarphéðni er hann sagði:
En mér þykja þau ekki minni fjörráð er hann bauð þér til veislu og skipaði þér í útibúr það er fyrst var húsum og var þar borinn að viður alla nóttina og ætlaði hann að brenna yður inni.

Fljótsdæla saga

Í Fljótsdælasögu er ýmist talað um „búr“ eða „útibúr“ og virðist það vera eitt og hið sama. Eftirfarandi er úr 17. kafla:
Hann sat í útibúri fyrir ofan hús. Þar var inni varningur hans. Ekki hafði hann verið við fund þennan og ekki hafði hann vitað til að styrjöld sjá hafði verið. Konan hleypur til búrsins. Þetta var vinnukona hans. Gunnar sat í dyrum útibúrsins og fiðraði örvar. 
Þarna segir beinlínis að búr hafi ekki verið við húsið heldur fyrir ofan það, má hugsa sér að það hafi verið gert svo vel trekkti í gegn svo matvarann héldist köld.

Egils saga

Í 78. kafla segir:
Þá hljópu þrælar hans á brott. Þeir komu fram um nótt að Þórðar á Lambastöðum og báru þar eld að húsum og brenndu þar inni Þórð og hjón hans öll, en brutu upp búr hans og báru út gripi og vöru; síðan ráku þeir heim hross og klyfjuðu og fóru síðan út til Álftaness.
Af þessu má ráða að „búr“ hafi ekki endilega verið matargeymsla heldur geymt margvíslega aðra vöru. Engu að síður er óljóst hvort þrælarnir hafi brotið upp fleiri en eitt búr, það er matarbúr sem og önnur búr.

Eyrbyggja

Í 20. kafla segir:
„Það skal sem yður líkar," segir Katla og bað matselju bera ljós fyrir þeim og lúka upp búri „það eitt er hús læst á bænum.“
Búr Kötlu hefur án efa verið matargeymsla enda er matseljan fengin til að opna. Hið merkilegast er að búrið var læst. Það hef ég ekki rekist fyrr á í flettingum mínum. Katla segir búrið eina læsta húsið á bænum. Gæti þetta ekki bent til að það hafi verið stakt hús, utan við önnur?

Í 51. kafla sögunnar er að finna einstæða og myndrænu lýsingu tengda Fróðárundrum:
Og er menn komu í rekkjur heyrðu þeir hark mikið í búrið. Var þá farið að forvitnast hvort eigi væru þjófar inn komnir. Og er menn komu til búrsins var þar sén kona mikil. Hún var nökvin svo að hún hafði engan hlut á sér. Hún starfaði að matseld. En þeir menn er hana sáu urðu svo hræddir að þeir þorðu hvergi nær að koma.
Nakin kona var við matseld og það hræddust fornmenn … Þetta minnir á ekkert annað en er Freydís Eiríksdóttir hins rauða skelfdi skrælingja á Vínlandinu góða er hún tók „brjóstið upp úr serkinum og slettir á sverðið“.

Hin nakta kona hét Þórgunnur, suðureysk að uppruna. Er þarna var komið sögu var hún steindauð, hafði gengið aftur, nakin, og var við eldamennsku. Það skondnasta kemur fram í sögunni að morguninn eftir átu menn þann mat er hin látna kona hafði matbúið og varð engum meint af …

Þetta er þó allt aukaatriði í þessu samhengi. Hitt skiptir máli að hægt var að matbúa í búrinu, það var ekki einungis geymsla. Gæti það hafa verið eldhús líka? Og hver er munurinn á „búri“ og „eldhúsi“? Þegar það er orðað þannig í ofangreindri tilvitnun að konan hafi verið við „matseld“ bendir það til að opinn eldur heldur hafi verið í búrinu og það því verið hvort tveggja, eldhús og búr. Það kemur hins vegar ekkert á óvart að matseld hafi verið stunduð í sérstöku húsi, á íslensku heitir það eldhús og hefur nafnið varðveist til þessa dags. Munurinn er þó sá að eldhúsið er nú eitt af herbergjum íbúðar.

Fóstbræðra saga

Í Fóstbræðrasögu segir af Þormóði Kolbrúnarskáldi á Grænlandi. Hann hafði særst í átökum og þurfti tíma til að jafna sig. Í upphafi 24. kafla segir:
Þá er Þormóður var orðinn heill maður þess er Falgeir hafði á honum unnið þá fluttu þeir Skúfur og Bjarni Þormóð heim á Stokkanes og varðveittu hann þar á laun í einu búri. Þar var Þormóður hinn þriðja vetur. Þann vetur seldu þeir Skúfur og Bjarni bæinn á Stokkanesi og aðrar jarðir þær sem þeir áttu og svo kvikfé og ætluðu að ráðast í brott af Grænlandi.
Þetta orðalag bendir líklega til þess að búrið hafi verið fjarri öðrum húsum og nægilega stórt til að maður gæti búið þar með öðru sem þar var geymt. Og það í heilan vetur.

Grettis saga

Í 30. kafla Grettissögu er greint frá ferðum Grettis. Þar segir:
Og meðan þeir voru fyrir sunnan heiðina fór Grettir heiman frá Bjargi og með honum tveir húskarlar Atla. Þeir riðu yfir til Búrfells og þaðan yfir hálsinn til Hrútafjarðar og komu til Mela um kveldið. […]
Þeir voru fimm saman, riðu uns þar til er þeir komu á Hrútafjarðarháls vestur frá Búrfelli. Þar stendur steinn mikill er kallaður er Grettishaf. Hann fékkst við lengi um daginn að hefja steininn og dvaldi svo þar til er þeir Kormákur komu. 
Hér er sagt frá Búrfelli sem merkt er með 21 á kortinu. Þar hjá er samnefndur bær en óljóst er hvort höfundur Grettissögu hafi átt við bæinn eða fjallið, en það skiptir líklega litlu máli.

Gísla saga Súrssonar

Í Gíslasögu Súrssonar segir svo í 25. kafla af Gísla í Hergilsey:
Gísli er ávallt í jarðhúsi þá er menn koma í eyna. En Ingjaldur var góður gestgjafi og býður Helga gisting; þar var hann um nóttina.
[…]
Nú er sagt að Þorgerður gengur til jarðhússins og ætlar að gefa Gísla dögurð en þili er á millum búrsins og þess er Helgi lá í. Þorgerður gengur í brott úr búrinu. Klífur Helgi upp á þilið og sér að þar var manni matur deildur og í því kemur Þorgerður inn og vinst Helgi við fast og fellur ofan af þilinu.
Búrið hefur verið í jarðhúsi, það er húsi sem er niðurgrafið. Hugsanlega er að til að kælingar. Fram kemur, og ekki í fyrsta sinn, að hægt var að leyfa fólki að gista í búrinu eða í sama húsi og búrið var.

Hallfreðar saga vandræðaskáld

Í fjórða kafla Hallfreðarsögu er í kvæði talað um „búrhund“ og víst er að orðið er ekki til neinnar upphafningar. Síðar í öðru kvæði er getið um „búr“ og átt við matarbúr.

Hávarðar saga Ísfirðings

Í 15. til 18. kafla er sagt frá því er menn „ryðja búr“, það er tæma öll föng úr því. Raunar er sagan af honum Atla í Otradal einstaklega fyndin. Hann á að hafa verið giftur Þórdísi sem var systir Steinþórs Þorlákssonar á Eyri, en frá honum segir í Eyrbyggju. Samkvæmt þeirri bók átti Steinþór aðeins eins systur, hana Helgu, en það er önnur saga.

Heiðarvíga saga

Í Heiðarvígasögu segir í 16. kafla:
Bær heitir að Búrfelli milli Svínavatns og Blöndu. Það er á Hálsum út. Þar bjó sá maður er Eiríkur hét og var kallaður viðsjá. Hann var skáld og eigi lítill fyrir sér.
Enn er bær undir Búrfelli á Sólheimahálsi, raunar tveir, Litla-Búrfell og Stóra-Búrfell (sjá merkingu nr. 22 á kortinu).

Víga-Glúms saga

Í 18. kafla Víga-Glúmssögu segir:
Vel hefir þú einurð haldið hér til en nú skýjar á heldur og finnst nú það á að þú munt oftar hafa staðið nær búrhillum og ráðið um matargerð með móður þinni en gengið að hestavígum og er þann veg litt skegg þitt eigi síður.
Varla þarf að skýra þessa málsgrein svo niðurlægjandi sem hún er. Hún er þó merkilegt fyrir þær sakir að þarna kemur fram að hillur hafi verið í búrum. Þó sumum finnist það sjálfsagt að hillur hafi verið notaðar hefur höfundum fornsagna ekki þótt sjálfsagt að greina frá því, fyrr en þarna.

Svarfdæla saga

Í 18. kafla í Svarfdælasögu segir:
Ekki er sagt frá ferðum Klaufa fyrr en hann kemur upp að Krókamelum gegnt Búrfellshúsum og þar er hann fyrir fjallmönnum við vaðið. 
Þarna vekja „Búrfellshús“ athygli lesandans. Höfundur á eflaust við bæinn Búrfell sem enn er þarna í Svarfaðardal. Ofan hans er Búrfellshyrna sem ábyggilega hét áður fyrr Búrfell. Fjallið er þó ekki tekið með í upptalninguna enda ekki ótvírætt að fjallið hafi borið nafnið.

Landnáma

Fróðlegt að fletta upp í Landnámu. þar segir frá Katli Örlygssyni landnámsmanni er átti erfitt með að finna sér samastað. Hann tapaði þrælum sínum sem misstu stjórn á sér með hörmulegum afleiðingum:
Þrælarnir báru eld að húsum og brenndu Þórð inni og hjón hans öll; þeir brutu þar upp görvibúr og tóku vöru mikla og lausafé; síðan ráku þeir heim hross og klyfjuðu; þeir snöru á leið til Álftaness. 
Ekki veit ég hvað „gjörvibúr“ en auðveldlega má hugsa sér að það sé frekar vel byggt og glæsilegt og jafnvel full matar.

Landnáma kemur á óvart og styður ekki alveg við röksemdafærsluna. Í 69. kafla er fjallað um víg í Noregi og þar:
Þá komu Öndóttssynir þar snemma um morguninn að svefnbúri því, er Auðun lá í, og skutu stokki á hurð. 
Hvað er „svefnbúr“? Hér hefur verið gengið að því vísu að „búr“ merki matargeymsla. Gæti verið að  „búr“ merki einfaldlega vistarvera eins og herbergi í þeim skilningi sem við þekkjum það orð. „Búr“ gæti einfaldlega merki einfaldlega hús með einu herbergi, nokkurs konar skáli eða „hytta“ eins og Norðmenn nefna það í dag?

Gylfaginning

Í Gylfaginningu er í 6. kafla sagt frá manni nokkrum sem var afi Óðins. Hér er allur kaflinn, hann er örstuttur og skiljanlegri í heild sinni:
Þá mælti Gangleri: „Hvar byggði Ýmir, eða við hvað lifði hann?“
Hár svarar: „Næst var það þá er hrímið draup að þar varð af kýr sú er Auðhumla hét, en fjórar mjólkár runnu úr spenum hennar, og fæddi hún Ými.“
Þá mælti Gangleri: „Við hvað fæddist kýrin?“
Hár svarar: „Hún sleikti hrímsteinana er saltir voru. Og hinn fyrsta dag er hún sleikti steina kom úr steininum að kveldi mannshár, annan dag mannshöfuð, þriðja dag var þar allur maður. Sá er nefndur Búri. Hann var fagur álitum, mikill og máttugur. Hann gat son þann er Bor hét, hann fékk þeirrar konu er Bestla hét, dóttir Bölþorns jötuns, og fengu þau þrjá sonu. Hét einn Óðinn, annar Vilji, þriðji Vé. Og það er mín trúa að sá Óðinn og hans bræður munu vera stýrandi himins og jarðar. Það ætlum vér að hann muni svo heita. Svo heitir sá maður er vér vitum mestan og ágætastan, og vel megið þér hann láta svo heita.“
Hérna er loks kominn Búri sá sem nefndur var að ofan í Orðsifjabókin. Ekki veit ég hvar það kemur fram að hann hafi verið stór en þarna er hann sagður mikill sem gæti haft aðra merkingu en stærð hans.

Ólafs saga Tryggvasonar

Í Ólafs sögu Tryggvasonar er sagt frá konungi í Vindlandi sem hét Búrisláfur, líklega samsett svona; Búri-sláfur. Hvað sláfur merkir veit ég ekki. Í íslensku Wikipediunni segir um annan með þessu nafni, líklega niðja hans:
Ríkissa var dóttir Búrisláfs 3., konungs Póllands, og seinni konu hans Salóme af Berg. Hans dætur voru þær Geira, Gunnhildur og Ástríður.
Eftirfarandi er þýðing úr sænsku Wikipediunni en þar segir:
Rikissa var dotter till kung Boleslav III av Polen och Salome av Berg. 
Hvernig skyldi nafnið Búrisláfur hafa orðið að Boleslav eða öfugt? Endingin „slav“ er algeng í slavneskum nöfnum, t.d. Jaroslaw, Stanislaw, Miroslava og fleira.

Búrisláfur“ þessi er örugglega hinn sami og greint er frá í Jómsvíkinga sögu. Þar er nafnið samt ritað á annan máta máta „Búrizláfur“.

Heimskringla

Í Heimskringlu eru sagðar fjölmargar sögur Noregskonunga. Í Sögu Inga konungs og bræðra hans segir í 6. kafla:
Þeir Sigurður gengu þar upp í elding nætur og komu á óvart og tóku hús á þeim og vildu leggja eld í býinn en Benteinn komst út í búr nokkuð með herklæðum og vel búinn að vopnum og stóð fyrir innan dyrin við brugðið sverð og hafði skjöld fyrir sér og hjálm á höfði, var þá búinn til varnar. Dyrnar voru heldur lágar. Sigurður spurði hví þeir gengju eigi inn. Þeir svöruðu að engi var einn fús til. 
Þarna er dálítil lýsing á búri sem maðurinn flýði inn í því sagt er að dyrnar hafi verið heldur lágar. Gæti það hafa verið reyndin?

Í Magnúsar sögu Erlingssonar kemur fyrir enn ein útgáfa á nafni sem dregið er af orðinu „búr“
Þeir fóru suður til Danmerkur á fund Valdimars konungs og þeirra Búriss Heinrekssonar, bróður Inga konungs. 

Landnámubók Sturlu

Í 46. kafla Landnámubók segir:
Oddleifur var faðir Gests hins spaka og Þorsteins og Æsu, er átti Þorgils son Gríms úr Grímsnesi. Þeirra synir voru þeir Jörundur í Miðengi og Þórarinn að Búrfelli. 
Átt er við Búrfell í Grímsnesi (sjá merkingu nr. 7 á kortinu).


Burfjell í Rogan.

Noregur

Þó svo að ég hafi dvalið í Noregi og lært eitthvað í því fallega máli er ég langt frá því sérfræðingur í orðsifjafræði þarlendra. Hitt veit ég í gegnum hann Gúgöl vin minn, að það eru að minnsta kosti tvö Búrfjöll þarna fyrir austan og bæði með þessu líka laglega „búrfellslagi“.

Hið fyrra er Burfjell í Rogan og hið seinna er Burfjell í Fusa. Merkilegt er að skoða myndir af þessum tveimur fjöllum. Eru þau með „Búrfellslagi“? Mér finnst nokkur líkindi
Burfjell í Fusa.
með því.


Stapi

Mörg Búrfellin eru keimlík í laginu og ekki síst þau sem bera jarðfræðilega heitið stapi eins og Búrfell við Þjórsárdal, Búrfell austan Mývatns og ábyggilega fleiri.

Hvað er þá stapi, svona jarðfræðilega séð. Jú, hann myndast  þegar eldgos verður undir jökli. Þá hlaðast upp gosefni í plássið sem eldgosið bræðir í jöklinum. Um leið og glóandi kvika snertir vatnið springur hún og myndar smágerð gosefni, en vegna þess að jökullinn virkar sem mót dreifast þau ekki heldur hlaðast smám saman upp. Þegar svo mikil gosefni hafa hlaðist upp að eldvirknin nær upp fyrir vatnsborðið rennur loksins hraun. Eftir að gosi lýkur heldur jökullinn að fjallinu, rétt eins og mót og með tímanum, og vegna hita og þrýstings, verður til móberg úr lausu gosefnunum.

Þetta gerðist margoft hér á landi á ísöld og þegar jökullinn hvarf urðu þessi fjöll eftir. Stapar er oftast hringlaga eða jafnvel ílangir. Efst er oft hraunskjöldur, dyngja, en undir er móberg. Sambærileg gos sem urðu eftir að ísöld lauk og jöklar hurfu er dyngjur, en það er nú allt annað mál.


Niðurstaða

Ég held að nú megi slá því föstu að búr sé ekki aðeins matargeymsla heldur hafi líka ýmislegt annað verið geymt í þeim. Mörg dæmi eru til í fornritum um að búr hafi verið notuð sem íverustaðir. Búr sem matargeymslur hafa líklega staðið þar sem gustar um enda hafi tilgangur verið að halda matvöru kaldri svo hún geymdist sem lengst. Dæmi um slíkt eru fiskhjallar nú til dags. Einnig er til að búr hafi verið grafin í jörðu í sama tilgangi.

Óljóst er hins vegar hvernig búr hafa litið út. Draga má þá ályktun af helstu fjöllum sem heita Búrfell að þau hafi verið með frekar flötu þaki, að minnsta kosti ekki bröttu. Þakið kann einnig að hafa verið ílangt.

Orðið „búr“ merkti líklega til forna eitthvað sem var stórt og mikið um sig og þá hefur hugsanlega ekki verið miðað við hús sem var matargeymsla. Orðið hafi einfaldlega verið heiti á stóru húsi eða nafn á stórum manni. Þess vegna er stórt fjall nefnt Búrfell í vegna þess að það er einfaldlega stórt fjall, upprunalega er það stórt stakt fjall.

Hvalurinn var þar af leiðandi verið nefndur búrhvalur vegna þess að hann er stærri og meiri um sig en flestir aðrir hvalir. Nafnið kom því ekki til vegna lýsis eða kjöts.

Hitt er svo óljóst hvers vegna stórt fjall er nefnt fell. Í Noregi eru eins og áður sagði að minnsta kosti tvö fjöll sem heita Burfjell. Á íslensku örnefnunum kann að vera málfræðileg skýring sem er sennilegri en aðrar, til dæmis náttúruleg.


Myndirnar

Gagnlegt væri að hafa myndir af öllum Búrfellunum og bera þau saman og flokka eftir útliti. Ég er þó enginn sérfræðingur í þessu og hef ekki beinlínis eytt tíma í að taka myndir af Búrfellum landsins.
Fyrir tilviljun hafa sum þeirra ratað inn á myndir hjá mér og af öðrum hef ég með fúsum og frjálsum vilja tekið mynd.

Þessar myndir eru allar hér að ofan. Með því að bera þær saman má með góðum vilja finn út semeiginlegt útlit sem jafnvel er hægt að kalla „búrfellslag“


Að endingu vona ég að einhver hafi haft gaman að þessari samantekt og tek það fram að ég gæti hafa gert einhverjar vitleysu í þessu, misritað eða snúið sjálfsögðum hlutum á hvolf. Fyrir alla muni ekki misvirða það heldur væri ég afar þakklátur að fá leiðréttingar. Eins væri gaman að fá myndir til að fylla upp í söguna.

sunnudagur, 10. nóvember 2013

Helgafellin á landinu eru átta





Nafnið Helgafell er fallegt, ber helgina næstum því með sér. Þau sem ég þekki eru eiginlega íhvolf, svona eins og skál á hvolfi, enginn tindur, heldur er hæsti hlutinn ... bara þar sem hæst ber. Þau eru tilgerðarlaus, frekar lítil og er því réttnefnd fell.

Mér telst svo til að átta fjöll á landinu beri nafnið Helgafell. Má vera að þau séu fleiri, sé svo myndi vinsamlegur lesandi eflaust láta mig vita.. Þau eru ekkert sérstaklega há sé miðað við umhverfið.

  1. Helgafell ofan Hafnarfjarðar, 340 m á hæð
  2. Helgafell í Mosfellsbæ, 217 m 
  3. Helgafell skammt frá Stykkishólmi, 73 m
  4. Helgafell við Hvalsárdal í Hrútafirði, 301 m
  5. Helgafell við Dýrafjörð, skammt frá Þingeyri, 549 m
  6. Helgafell á Seljaheiði, suðvestan við Þistilfjörð, 460 m
  7. Helgafell á Vatnsdalsfjalli norðaustan við Hvolsvöll, 362 m
  8. Helgafell á Heimaey, 226 m
Ekki þekki ég þau öll Helgafellin, vantar þrjú upp á. Það vekur athygli mína að þú eru einkum á vesturhluta landsins, með einni undantekningu.

Frægasta Helgafellið er án efa það sem er í samnefndri sveit og skammt frá Stykkishólmi. Í Eyrbyggju segir frá Þórólfi Mostraskegg, landsnámsmanni:
Helgafell á Þórsnesi. Myndin er tekin úr austri, við mynni Álftafjarðar.
Þórólfur kallaði Þórsnes milli Vigrafjarðar og Hofsvogs. Í því nesi stendur eitt fjall. Á því fjalli hafði Þórólfur svo mikinn átrúnað að þangað skyldi engi maður óþveginn líta og engu skyldi tortíma í fjallinu, hvorki fé né mönnum, nema sjálft gengi í brott. Það fjall kallaði hann Helgafell og trúði að hann mundi þangað fara þá er hann dæi og allir á nesinu hans frændur.
Síðar í sögunni er afskaplega falleg frásögn af sýn inn í fjallið. Lesandinn sér fyrir sér birtu og hlátrasköll og notalegt mannlíf. Ef til vill var það tilgangur höfundarins en framar öllu var þetta fyrirboð alvarlegra tíðinda:

Það var eitt kveld um haustið að sauðamaður Þorsteins fór að fé fyrir norðan Helgafell. Hann sá að fjallið laukst upp norðan. Hann sá inn í fjallið elda stóra og heyrði þangað mikinn glaum og hornaskvöl. Og er hann hlýddi ef hann næmi nokkur orðaskil heyrði hann að þar var heilsað Þorsteini þorskabít og förunautum hans og mælt að hann skal sitja í öndvegi gegnt föður sínum. Þennan fyrirburð sagði sauðamaður Þóru konu Þorsteins um kveldið.
Hún lét sér fátt um finnast og kallar vera mega að þetta væri fyrirboða stærri tíðinda.
Um morguninn eftir komu menn utan úr Höskuldsey og sögðu þau tíðindi að Þorsteinn þorskabítur hafði drukknað í fiskiróðri og þótti mönnum það mikill skaði.

Saga Helgafells á Þórsnesi tengist órjúfanlegum böndum sögu þjóðarinnar. Ekki aðeins er það áberandi í Eyrbyggju heldur alla tíð síðan. Þar var löngum kirkja og einnig klaustur og ábúendur á jörðinni Helgafelli voru margir merkilegir menn allt frá söguöld og lengi síðan.

Saga annarra Helgafella er ekki eins litrík. Engu að síður er Helgafell ofan Hafnarfjarðar afar þekkt í samtímanum. Þangað flykkist fólk á björtum dögum og gengur á fjallið enda er það auðvelt fyrir flesta þó sums staðar sé það bratt og geti verið hættulegt óvönum. Sama má segja með Helgafell í Mosfellsbæ og jafnvel Helgafell á Heimaey.